Ofnbakaður þorskur

Deila:

Nú er vetrarvertíð komin á fulla ferð og feitum og fallegum þorski mokað upp í net, á línu og í troll. Það er því nóg framboð af þorski um þessar mundir þó 98% af þorskinum séu flutt á erlenda markaði. Mikil eftirspurn er nú eftir þorski í öðrum löndum, sérstaklega vegna viðskiptabanns á Rússa vegna innrásarinnar í Úkraínu, en Rússar veiða mikið af þorski í Barentshafi og flytja undir eðlilegum kringumstæðum mikið af honum á markaði í Vestur-Evrópu og Ameríku. Í ljósi þessa prufum við uppskrift að ofnbökuðum þorski. Uppskriftin er fyrir fjóra.

Innihald:

800g  þorskflak, roð og beinlaust
1 msk. salt
2 geirar hvítlaukur
1 msk. smjör
200g gulrætur
200g rótargrænmeti
1 lítill hvítkálshaus
½ tsk. malaður svartur pipar
1 grein timían
2 msk. matarolía
2 tsk. hlynsýróp
smjör

Smjörsósa:
200g smjör
2 msk. sojasósa
pipar

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C. Skerið flakið í fjóra jafna bita. Stráið saltinu yfir þá og látið liggja í 7 mínútur. Skolið þá saltið af fiskinum og þerrið hann með eldhúspappír. Skerið gulræturnar og annað grænmeti í strimla og leggið í eldfast mót með timíaninu. Þarna má nota kartöflur, rófur eða hvaða rótargrænmeti sem er. Jafnið hlynsýrópi og matarolíu yfir.

Setjið grænmetið í ofninn og athugið eftir 10 mínútur hvort það er byrjað að mýkjast. Þegar grænmetið er að verða tilbúið er fiskurinn settur í ofninn í öðru móti. Stráið pipar yfir og hvítlauk í sneiðum. Bakið fiskinn í um 10 mínútur.

Skerið kálið í báta og steikið í smjöri.

Sósan:

Bræðið smjörið og látið hitna þar til það fer að brúnast, ekki brenna það. Blandið þá sojasósunni út í og smakkið til með pipar.

Berið fiskinn fram með káli og grænmeti og smjörsósunni. Skreytið með timían. Ef kartöflur hafa ekki verið með í grænmetinu er gott að hafa soðnar kartöflur með fiskinum.

Deila: