Ófriðarbál í boði ráðherra

208
Deila:

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda gerði „ófriðarbál“ sjávarútvegsráðherra að umræðuefni í skýrslu sinni til aðalfundar LS í gær. Hann fór yfir ýmis ágreiningsmál við Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra meðal annars frumvarp um að setja grásleppuveiðar í kvóta og sagði þá:

„Að öðru ófriðarbáli í boði sjávarútvegsráðherra.  Frumvarp um að kvótasetja grásleppu.  Í fyrra var eldur þar nánast kulnaður, aðeins nokkrar glóðir.  Enda höfðu stjórnarflokkar sem eru með flokki ráðherra í ríkisstjórn ekki afgreitt frumvarpið.  Skilaboðin voru skýr, þeir voru andvígir efni þess.

Allir vita hvernig fór með síðustu grásleppuvertíð.  Vegna óstjórnar misstu  40 til 50 bátar af vertíðinni.  Ráðherra hafði stöðvað veiðar án þess að gera tilraun til að jafna fjölda daga milli aðila.  Meira að segja var svo langt gengið þvert á reglugerð að heimila aðeins völdum bátum veiðar í ákveðinn fjölda daga, en skilja aðra eftir án réttinda.

Landssambandið hefur nú fengið álitsgerð lögmanns um athöfnina sem verður send hópi félagsmanna sem neitar að láta troða á sér með þessum hætti.

Auðvitað varð óstjórn veiðanna til að kveikja ófriðarbál sem logar milli þeirra sem vilja kvótasetja grásleppuna eða hafa stjórn veiðanna eins og hún hefur verið frá því byrjað var að stjórna þeim með ákvörðun um fjölda veiðidaga og veiðisvæða.  Sú veiðistjórn hefur gengið vel þar til á síðustu vertíð.   Tillögur LS um að vel yrði fylgst með framgangi veiða voru hunsaðar.

Það verður hlutverk frestunarhluta aðalfundarins að finna farsælustu niðurstöðuna í þessu erfiða máli.“
Vegna faraldursins sem nú geisar er fundurinn rafrænn og lýkur honum síðar í dag.

 

Deila: