Ógæftir draga úr strandveiðum

Ógæftir hafa komið í veg fyrir að strandveiðar hafi gengið eins vel í vor og sumar og undanfarin ár. Leyfilegur heildarafli náðist einungis á svæði A í maí, en á hinum svæðunum færðust töluverðar aflaheimildir yfir á núverandi tímabil.

„Því er heldur ekki að neita að erfiðara hefur reynst fyrir menn að ná skammtinum sínum. Annars eru karlarnir mjög jákvæðir og sérstaklega er gott hve fiskverðið hefur verið á mörkuðunum. Það er aðdáunarvert hvað menn ganga vel um aflann og ísa hann. Menn höfðu nokkrar áhyggjur af því að verðið myndi lækka eitthvað með auknu framboði, en það hefur bara haldist mjög vel og verið að hækka frekar en hitt. Þar hefur það hjálpað að ógæftirnar hafa komið í veg fyrir að allir næðu að fara á sjó í einu og framboð yrði of mikið. Þó aðeins hafi blásið í gær voru mjög margir á sjó,“ segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, í samtali við kvotinn.is.
Nú eru komin tæplega 600 leyfi í notkun en heildarútgefin leyfi eru 613. „Veiðin hefur verið mest á bát að meðaltali á svæðum A og D. Það er alveg eins og verið hefur undanfarin ár. Svæði B og C koma meira inn í veiðina í júlí og ágúst. Þá er veiðin mest þar. Flest leyfin eru eins og á undanförnum árum á svæði A eða samtals 234.  Í maímánuði náðist að veiða upp í heimildir á A-svæðinu, en á hinum svæðunum fluttist það sem eftir var yfir á júníveiðarnar. Staðan eftir gærdaginn var sú að rúmlega helmingur var eftir að veiða á A-svæði og þrír fjórðu á B-svæði en meira var eftir á hinum tveimur,“ segir Örn.
Leyfilegur hámarksafli á öllum svæðunum allt tímabilið er 8.600 tonnn af kvótabundnum tegundum. Uppistaðan er þorskur. Ekki má róa á föstudögum, laugardögum og sunnudögum og á lögbundum frídögum eru veiðar sömuleiðis bannaðar. Hver bátur má hafa allt að 4 handfærarúllur um borð og hver veiðiferð má ekki standa lengur en 14 tíma. Hámarks afli í róðri er 650 tonn af kvótabundnum tegundum.
Landinu er skipt í fjögur veiðisvæði. Leyfi til strandveiða eru veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðaraðila viðkomandi báts er skráð og eingöngu er heimilt að landa afla innan þess landsvæðis á veiðitímabilinu. Aflamagn er háð takmörkunum fyrir hvert landsvæði innan hvers mánaðar. Sé heimildin ekki fullnýtt flyst heimildin á milli mánaða, allt til ágústloka. Í reglugerð um strandveiðar árið 2013 er veiðisvæðum og magni á hverjum tímabili skipt svo:
Svæði A: Eyja- og Miklaholtshreppur til Súðavíkurhrepps. Í hlut þess koma 715 tonn í maí, 858 tonn í júní, 858 tonn í júlí og 429 tonn í ágúst.
Svæði B: Strandabyggð til Grýtubakkahrepps. Í hlut þess koma 509 tonn í maí, 611 tonn í júní, 611 tonn í júlí og 305 tonn í ágúst.
Svæði C: Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps. Í hlut þess koma 551 tonn í maí, 661 tonn í júní, 661 tonn í júlí og 331 tonn í ágúst.
Svæði D: Sveitarfélagið Hornafjörður til Borgarbyggðar. Í hlut þess koma 600 tonn í maí, 525 tonn í júní, 225 tonn í júlí og 150 tonn í ágúst.
Á meðfylgjandi mynd Arnar Pálssonar er verið að landa úr Sól BA á Patreksfirði.