-->

Okkar hlutverk er að veita viðskiptavinunum sem besta þjónustu

„Með nýja húsinu hjá ÚA erum við að stíga ný skref í tæknivæðingu fiskvinnslunnar en þessi framkvæmd er hluti af fjölþættari aðgerðum sem við vinnum að hjá Samherja. Tilkoma þriggja nýrra skipa sem Samherji er með í smíðum snertir einnig starfsemi landvinnslunnar og við erum á sama tíma að skoða hvernig við þróum vinnslu okkar á Dalvík áfram. Allt er þetta ein heildarmynd sem við horfum á í samhengi; ný skip, ný tækni í landvinnslunni og stöðug þróun á afurðamörkuðum,“ segir Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja hf. Fyrirtækið rekur umfangsmikla landvinnslu á Eyjafjarðarsvæðinu, annars vegar á Dalvík og hins vegar undir merkjum Útgerðarfélags Akureyringa á Akureyri. Í heild var unnið úr rúmum 28 þúsund tonnum af hvítfiski í þessum tveimur húsum í fyrra, sem skilaði rúmum 17 þúsund tonnum af afurðum. Um 40% framleiðslunnar eru ferskar afurðir. Um 300 manns starfa í vinnslunum við Eyjafjörð, auk hausaþurrkunarinnar á Laugum.

Tæknivæðing og sjálfvirkni hjá ÚA
Fyrir áramót var tekin í notkun nýtt hús við fiskvinnslu ÚA á Akureyri þar sem tækni er með því mesta sem gerist í hvítfiskvinnslu hér á landi. Gestur segir megininntak breytinganna í vinnslunni þríþætt. Í fyrsta lagi sé um að ræða vatnsskurðarvél með fjölbreyttari möguleikum til skurðar en völ hafi verið á hingað til, í öðru lagi sjálfvirkni í afurðaflokkun og í þriðja lagi tæknivæðingu í pökkun og lokafrágangi afurða. Að langmestu leyti var bygging hússins og breytingar í vinnslunni unnar með íslenskum fyrirtækjum. Að vinnslunni komu tæknifyrirtækin, Valka, Samey og Marel sem framleiddu og þróuðu stóran hluta þess búnaðar sem vinnslan byggir á. Gestur er ánægður með útkomuna og telur vel hafa tekist til.
„Aðalmarkmið okkar er að auka tæknina og fjölga möguleikum til að veita kaupendum afurða Samherja enn betri þjónustu. Vatnsskurðartæknin er allt önnur meðhöndlun á hráefninu en áður tíðkaðist og á að skila okkur betri nýtingu. Við getum með þessari tækni skorið flökin af mikilli nákvæmni og á fjölbreyttari hátt en áður. Takmarkið er að auka þannig verðmæti á hverju fiskflaki sem fer í gegnum vinnsluna,“ segir Gestur.
Af öðrum tæknilegum nýjungum í vinnslulínunni hjá ÚA má nefna að röntgentækni vaktar að bein komist ekki í gegnum vinnsluferilinn. Þannig er hvert einasta flak skoðað áður en það fer í vatnsskurðinn og einnig eftir hann. Þetta er eina fiskvinnslan hér á landi með slíku tvöföldu vöktunarkerfi.
„Við höfum haft yfir að ráða búnaði til að skanna afurðir fyrir einstaka kúnna og einstaka markaði en með nýja búnaðinum fer öll framleiðslan í gegnum beinaleitina. Þetta er eitt dæmi um aukna þjónustu við viðskiptavini og þó bein í fiski hafi ekki verið vandamál í vinnslunni þá viljum við gera allt til að tryggja að frá okkur fari algjörlega beinlausar afurðir,“ segir Gestur.

 

Möguleikar til fjölbreyttari afurðavinnslu
Afkastageta frumvinnslunnar hjá ÚA breyttist ekki við nýju skurðarlínuna en aftur á móti tvöfaldaðist afkastageta í pökkun sem Gestur segir nýtast til að taka afurðir frá vinnslunni á Dalvík og pakka í lokaumbúðir á Akureyri.
„Þetta gildir þá um hluta framleiðslunnar frá Dalvík en áfram mun stór hluti afurða frá því húsi fara í magnpakkningum beint til viðskiptavina erlendis. Hér erum við að tala um frosnar afurðir en með nýju pökkunarstöðinni hjá ÚA erum við líka að auka möguleika okkar til pökkunar á ferskum afurðum og þessi nýi búnaður í heild eykur tækifæri okkar til fjölbreyttari vinnslu á bitum og pökkunar á þeim á mismunandi hátt, allt eftir því hvað viðskiptavinurinn vill,“ segir Gestur en stærstur hluti af því magni sem Samherji flytur ferskt á erlenda markaði fer beint í stórmarkaði og fiskborð verslana. Með öðrum orðum er því um að ræða lokaafurð á neytendamarkað. „Aðrar ferskar afurðir frá okkur fara þá í einhvers konar áframvinnslu,“ segir hann.

 

Afurðir á leið til kaupenda alla daga ársins
Hjá Samherja hf. hefur hlutfall ferskra afurða frá landvinnslum jafnt og þétt farið vaxandi síðustu ár. Eins og áður segir skapar nýja húsið á Akureyri forsendur fyrir meiri fjölbreytni í ferskfiskafurðum og með því segir Gestur fyrirtækið búa sig undir að auka enn frekar hlutfall ferskra afurða í framleiðslu sinni á komandi árum. Engu að síður sé markaður fyrir frystar afturðir sterkur og engin ástæða sé til að ætla annað en hann verði til staðar í framtíðinni enda mikið framleitt af allt kyns fiskréttum og brauðuðum afurðum úr frosnum fiski.

Gestur segir Samherja nýta sér öll tækifæri sem gefist í flutningum frá landinu, hvort heldur er á sjó eða landi.

„Frá Samherja fara ferskar afurðir á erlenda markaði alla daga ársins. Við seljum bæði á Evrópumarkað og á Ameríkumarkað en sá síðarnefndi hefur vaxið hjá okkur síðustu ár, bæði í ferskum og frosnum afurðum. Bæði kemur til aukinn áhugi á þessum markaði til viðbótar við hagstæða gengisþróun á síðustu árum. Ameríkumarkaður er gríðarlega stór og í gegnum árin höfum við alltaf haldið tryggð við hann þó um tíma hafi vöxturinn verið meiri í Bretlandi og á meginlandi Evrópu,“ segir Gestur. Meirihluti útflutnings ferskra afurða frá landvinnslu Samherja á Eyjafjarðarsvæðinu er fluttur út með fraktskipum en einnig notfærir fyrirtækið sér siglingar Norrænu, auk bæði flutninga- og farþegaflugs. „Við fylgjumst því vel með þróun í flugsamgöngum frá landinu og skoðum öll tækifæri sem opnast með nýjum áfangastöðum flugfélaganna erlendis.“

 

Þarfir markaðarins ráða ferðinni
Fyrirtæki af þeirri stærðargráðu sem Samherji er þjónar eðli máls samkvæmt stórum hópi viðskiptavina erlendis á degi hverjum. „Að uppistöðu til eru þetta sömu viðskiptavinir sem við höfum þjónustað árum og áratugum saman,“ segir Gestur og leggur áherslu á hugtakið þjónustu í þessu samhengi. Hann segist líta svo á að með framleiðslu sinni sé Samherji að veita þjónustu á hverjum degi, vinna með viðskiptavinum og verða við þeirra óskum og þörfum um vörur. Miklu skipti að hafa allt ferlið á einni hendi, frá veiðum til lokafrágangs fiskafurðanna. „Oft er talað um ferilinn í sjávarútvegi frá veiðum til markaðar. Við viljum snúa þessu við og tala um að vinna frá markaði til veiða því það er markaðurinn sem stýrir því sem við gerum. Ef markaðurinn þarf að fá mikið magn af ferskum þorski á þriðjudegi þá bregðumst við strax við með stýringu á veiðunum. Á þennan hátt snýst okkar starf í vinnslunni um að vinna mjög náið með annars vegar markaðnum og hins vegar útgerð skipanna. Því er enginn vafi að einn af helstu styrkleikum Samherja sem sjávarútvegfyrirtækis er að hafa stjórn á öllum þessum þáttum, reka öflugt markaðsstarf við hlið útgerðar og vinnslu og vera með gott fólk úti á mörkuðunum. Markaðstenging sjávarútvegfyrirtækjanna er komin til að vera og mun aðeins halda áfram að aukast á komandi árum,“ segir Gestur.

 

Afhendingaröryggið mikilvægt
Afhendingaröryggi segir Gestur vera einn allra mikilsverðasta þátt nútíma fiskvinnslu, það að viðskipavinum sé tryggð sú vara sem þeir þurfa og á þeim tíma sem þeir þurfa. Geti stórmarkaðir erlendis ekki treyst því að fiskurinn frá Íslandi skili sér á réttum tíma verði hann undir í samkeppninni. „Þessi þjónusta sem ég nefndi áðan og samspil stöðugra gæða og afhendingaröryggis eru lykilþættirnir í okkar daglega starfi. Okkar vara á sitt hillurými í stórmörkuðunum og ef hún ekki skilar sér þá kemur eitthvað annað í staðinn, hvort heldur það er kjúklingur eða annar fiskur. Við vinnum í miklu samkeppnisumhverfi og keppum til dæmis við Norðmenn, bæði framleiðslu þeirra á hvítum fiski og laxi. Það vill stundum gleymast hversu gríðarlega öflug vara laxinn er út um allan heim. Hann hefur hækkað í verði undanfarin ár og það kann líka að skapa okkur Íslendingum tækifæri að bjóða þorskinn sem ódýrari vöru en hágæða matfisk við hliðina á laxinum. Íslenskar fiskafurðir eru þannig í stöðugri samkeppni og okkar starf snýst um að standa alltaf sem best að vígi í henni,“ segir Gestur Geirsson.
 

 

 

 

 

 

Attachments

Comments are closed.