Ótal margar nýjungar

188
Deila:

Enn eru tveir mánuðir þar til Íslenska sjávarútvegssýningin hefst í Kópavogi í haust. Skipulagsteymi Íslensku sjávarútvegssýningarinnar fær daglegar fyrirspurnir og sýningarsalirnir verða brátt alveg fullbókaðir. „Við hlökkum virkilega til sýningarinnar í haust, enda hefur hún upp á ótal margar nýjungar að bjóða,” segir Marianne Rasmussen Coulling, framkvæmdastjóri sýningarinnar.

„Ráðgjafanefnd Íslensku sjávarútvegssýningarinnar, Icefish, fundaði fyrir skömmu í Reykjavík til að ræða undirbúning og áætlanir fyrir sýninguna. Nefndin lýsti yfir fullum stuðningi við fyrirliggjandi áform um afbragðs sýningu í september nk. Í ráðgjafanefndinni sitja fulltrúar frá eftirtöldum aðilum; atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Marel, Sæplast, Samhentir Kassagerð, bæjarstjórn Kópavogs, Valka, Íslyft og Hampiðjan á Íslandi. Nefndinni til fulltingis er teymi skipað stjórnendum og fulltrúum almannatengslasviðs Íslensku sjávarútvegssýningarinnar.

Nefndarmenn voru einróma um að tímabært væri að setja á fulla ferð að nýju eftir nær hálft annað ár af takmörkunum og tilheyrandi einangrun samfara heimsfaraldrinum, og taka höndum saman um að Icefish í september verði sem best úr garði gerð í samræmi við áætlanir,“ segir í frétt frá sýningarstjórn

Ómar Már Jónsson hefur verið ráðinn sölustjóri Íslensku sjávarútvegssýningarinnar á Íslandi. Ómar Már:
„Ég horfi með mikilli eftirvæntingu til þess að Íslenska sjávarútvegssýningin mæti til leiks að nýju í Fífunni í Kópavogi nk. september. Hún verður í hópi alfyrstu sýninga sem haldnar verða á Íslandi frá því að heimsbyggðin tók að kljást við heimsfaraldurinn, og það er svo sannarlega tímabært að hittast á nýjan leik og endurnýja eða styrkja gömul viðskiptatengsl og vináttu.

Við finnum það á fjölgun bókana fyrirtækja á sýninguna síðastliðnar vikur að stjórnendur eru tilbúnir að komast inn á markaðinn aftur, og engin leið er öflugri til þess en viðburðir þar sem fólk hittist, á ánægjuleg samskipti augliti til auglitis og gerir nýja viðskiptasamninga.

Eitt af markmiðum mínum er að byggja upp enn betri þjónustu fyrir íslensku sýnendur okkar, sérstaklega þá sem þurfa lítilsháttar stuðning aukreitis við undirbúninginn, í því skyni að aðstoða þá við að fá sem allra mest úr sýningunni.

Icefish-sýningin er og verður fyrirtaks vettvangur til að sýna umheiminum styrk og nýsköpunarstarf sjávarútvegsins. Þar fá viðskiptavinir, samstarfsmenn, samkeppnisaðilar, gamlir vinir og nýir, stað til að hittast að nýju og fagna þeirri staðreynd að þessi öflugi atvinnuvegur hefur siglt í gegnum erfiða tíma með glæsibrag.”

Deila: