Óveður gengur yfir landið

193
Deila:

Fiskiskipaflotinn er nú nánast allur í landi, enda versta lægð í langan tíma að ganga yfir landið. Vindhraði yfir 30 metrar og mun meira í kviðum. Fyrir vikið var miklu landað um allt land í gær, en aflabrögð hafa verið mjög góð þegar gefur og vertíðarfiskurinn genginn á miðin við Reykjanesið.

Landhelgisgæslan er með aukinn viðbúnað vegna óveðursins sem gengur yfir landið í dag. Varðskipið Þór hélt frá Reykjavík klukkan 15 í gær og hélt á Vestfirði. Alla jafna er eitt varðskip á sjó hverju sinni en vegna veðursins var ákveðið að áhöfnin á varðskipinu Tý væri í viðbragðsstöðu í Reykjavík og tilbúin að halda á sjó ef á þarf að halda. Enn fremur eru tvær þyrlur til taks auk tveggja þyrluáhafna.

Þá hvatti Landhelgisgæslan eigendur og umsjónarmenn skipa og báta að huga að þeim vegna þessa slæma veðurs. Auk þess bendir LHG á að öldu- og vindáhlaðandi, samfara þeim lága loftþrýstingi sem spáð er, geti bætt talsvert við sjávarhæð í höfnum umfram það sem útreiknaðar sjávarfallatöflur gefa til kynna.

Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

 

Deila: