Óverulegt magn þrávirkra lífrænna efna í sjávarfangi

Deila:

Niðurstöður nýrrar vöktunar á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs sem ætlað er til manneldis sýna að staðan á síðasta ári er í samræmi við niðurstöður fyrri vöktunarverkefna á árunum 2003-2012 og 2013-2021. Vöktunin leiddi í ljós að íslenskar sjávarafurðir innihalda óverulegt magn þrávirkra lífrænna efna s.s. díoxín, PCB og varnarefni, samkvæmt upplýsingum frá Matís. Markmiðið með verkefninu er að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t.t. öryggi og heilnæmis og nýta gögnin við gerð áhættumats á matvælum til að tryggja hagsmuni neytenda og lýðheilsu.Vöktunin hófst árið 2003 fyrir tilstuðlan þáverandi sjávarútvegsráðuneytis sem þá hét og sá Matís ohf. um að safna gögnum og útgáfu á skýrslum vegna þessarar kerfisbundnu vöktunar á tímabilinu 2003-2012. Vegna skorts á fjármagni í vöktunarverkefnið var gert hlé á gagnasöfnuninni sem og útgáfu niðurstaðna á tímabilinu 2013-2016. Verkefnið hófst aftur í mars 2017 en vegna fjárskorts nær það nú eingöngu yfir vöktun á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs úr auðlindinni sem ætlað er til manneldis, en ekki fiskimjöl og lýsi fyrir fóður. Af sömu ástæðu eru ekki lengur gerðar efnagreiningar á PAH, PBDE og PFC efnum.

Deila: