Óviss, mjög krefjandi, en ekki vonlaus staða

168
Deila:

Þegar slær í hin efnahagslegu baksegl á Íslandi er ekki úr vegi að gaumgæfa stöðuna í grundvallaratvinnugrein og spyrja, hvað er að gerst í sjávarútveginum? Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, fer yfir stöðuna í pistli á heimasíðu samtakanna.

Sjávarútvegurinn hefur ekki farið varhluta af þeim ósköpum sem orðið hafa vegna COVID-19. Það þrengdist um á mörkuðum og ákveðnir markaðir, bæði austan hafs og vestan, lokuðust nánast eins og hendi væri veifað. Það á sérstaklega við um mikilvægasta markaðinn fyrir ferskan fisk í Evrópu. Það sama á að nokkru leyti við um eldisfisk frá Íslandi. Markaður fyrir hann hefur dregist saman og sala á bleikju er nánast hrunin. Þó eru vísbendingar um að hægt verði að selja eldisafurðir til Kína. Erfiðar efnahagsaðstæður í Nígeríu vegna lækkunar á olíuverði hafa leitt til þess að höft eru á innflutningi á þurrkuðum afurðum. Sala á frystum afurðum í smásölu hefur hins vegar gengið bærilega, einhver spurn er eftir söltuðum afurðum í Portúgal, og markaðir fyrir mjöl og lýsi eru enn opnir. Í stuttu máli er þetta ástandið á mörkuðum. Þeir eru ekki horfnir fyrir fullt og fast, en lokaðir að hluta og íslensk sjávarútvegsfyrirtæki leita nú allra leiða til að koma afurðum í verð.

Verðlækkanir
Eins og vænta mátti hafa kaupendur að íslenskum sjávarafurðum einnig lent í erfiðleikum. Það hefur meðal annars haft þær afleiðingar að nokkuð er þrýst á verðlækkun. Þá er mikið um afpantanir og farið er fram á greiðslufrest. Þótt allt þetta geri íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum erfitt fyrir hafa þau ýmis ráð til að bregðast við breyttum aðstæðum. Það á þó ekki við um öll fyrirtæki. Til dæmis geta mörg þeirra sem fluttu mikið út af ferskum afurðum framleitt í frost og geymt afurðir þar í einhvern tíma. Þá hafa sumir brugðist við með því að auka vinnslu á saltfiski. Mjöl og lýsi er hægt að geyma og sama má segja um þurrkaðar afurðir. Allt þetta leiðir þó til þess að tekjur dragast mjög skart saman, til skemmri tíma litið, og kostnaður við birgðahald hækkar. Ekki er útilokað að hægt verði að bæta þetta að einhverju leyti upp þegar fram í sækir. Fólk mun ekki hætta að borða fisk, það er bara ekki eins hentugt að verða sér úti um hann og í venjulegu árferði.

Flutningar
Flutningar á afurðum hafa gengið nokkuð vel. Flugfrakt er blessunarlega enn í boði, en til færri áfangastaða og á hærra verði. Siglingar hafa gengið með ágætum. Þá hafa flutningar innanlands á Íslandi gengið vel. Það sem hefur einna helst valdið vandræðum eru flutningar á milli landa þegar afurðir eru komnar til útlanda, sérstaklega á meginlandi Evrópu. Þar vinnur að sjálfsögðu með útflytjendum að fiskur er fjarri því eina varan sem flutt er á milli landa, í raun aðeins lítið brot. Við upphaf ástandsins reyndi nokkuð á þessa flutninga en svo virðist sem þeir séu nú komnir í betra horf.

Kerfið
Vert er að nefna að á tímum sem þessum koma eiginleikar fiskveiðistjórnunarkerfisins ágætlega í ljós. Kvótakerfið byggist á því að fyrirtækjum er heimilt að veiða ákveðið magn af fiski, sem þau síðan gera, þegar hentar. Til skamms tíma geta þau því „geymt“ fiskinn í sjónum og sótt hann þegar betur árar. Þegar svo er þarf að stilla saman veiðar, vinnslu og sölu, eins og reyndar er gert á öllum tímum. Þessir þættir eru oft samþættir og það gerir fyrirtækjunum mun auðveldara að takast á við ástandið. Það er ekki nóg að veiða fiskinn, það þarf einnig að verka hann, pakka og selja. Virðiskeðjan er löng og á hana eru sífellt að bætast nýjar afurðir. Afurðir sem enginn hafði hugmyndarflug fyrir nokkrum árum að væru mögulegar en í núverandi aðstæðum reynir alveg sérstaklega á hugmyndaauðgi í þá veru.

Og hver er þá staðan?
Staðan er því nokkurn veginn þessi: óviss, mjög krefjandi, en ekki vonlaus. Það getur þó breyst, bæði til hins verra og til hins betra. Útflutningur á sjávarafurðum frá Íslandi hefur orðið fyrir höggi en það högg mun ekki gera útaf við sjávarútveginn. Áhrifin verða örugglega mikil og neikvæð til skemmri tíma en íslenskur sjávarútvegur mun ná sér á strik. Hvenær veit enginn, en staðfesta, útsjónarsemi, reynsla og einurð allra starfsmanna í íslenskum sjávarútvegi mun verða þungt lóð á vogarskálarnar.

 

 

Deila: