Óvissa á mörkuðum fyrir íslenskan fisk

100
Deila:

Mikil óvissa ríkir enn á erlendum mörkuðum fyrir íslenskan fisk. Eftirspurnin fylgir mjög árangrinum í baráttunni við kórónuveiruna og afléttingu takmarkana. Á meðan sala til Evrópu batnar, er útlitið verra í Bandaríkjunum og Asíu. Algert hrun varð á vissum mörkuðum fyrir fisk frá Íslandi í kjölfar farsóttarinnar. Markaður fyrir ferskan fisk til veitingahúsa lokaðist nær alveg og stórar verslunarkeðjur drógu mjög úr kaupum, svo dæmi séu tekin, samkvæmt frétt á ruv.is

Eftirspurnin fylgi árangrinum í baráttunni við veiruna

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir í samtali við ruv að eftirspurnin fylgi árangrinum í baráttunni við veiruna. „En aðstæður eru í flestum tilvikum, myndi ég segja, eitthvað að glæðast. Það er auðvitað áframhaldandi mikil óvissa og við sjáum það bara í fréttum af bakslagi í baráttunni við veiruna í einstökum löndum.“

Útlitið betra í Evrópu en í Bandaríkjunum og Asíu

Þar nefnir hún sérstaklega Bandaríkin og Asíu. Það hafi úrslitaáhrif að það takist að hefta útbreiðsla veirunnar í Bandaríkjunum og að árangur náist þar sem veiran er aftur að blossa upp í Asíu. Útlitið sé hins vegar betra í Evrópu. „Þar virðist vera að menn séu að ná að hefta útbreiðslu veirunnar og það sé  verið að létta á ferðatakmörkunum ýmiss konar. Það auðvitað hjálpar til í sölu sjávarafurða ef veitingastaðir opna og einhver túrismi glæðist.“

Erfitt að gera marktækar áætlanir

En í þessari miklu óvissu sé afar erfitt að gera marktækar áætlanir um sölu. „Þannig að menn eru að mínu viti, og eins og ég heyri það, í raun að vinna þetta frá degi til dags og staðan breytist mjög fljótt. Jafnvel þegar afurðir eru lagðar af stað úr landi þá geti komið bakslag og breytingar og kröfur um lækkuð verð,“ segir Heiðrún.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

 

Deila: