-->

Pönnusteiktur þorskur með paprikusósu

Þá er það þorskurinn. Sá guli stendur alltaf fyrir sínu og fólk er almennt farið að borða meira af ferskum þorski en áður var. Hann er mjög góður fiskur, ekki sérlega bragðmikill, en holdið er nokkuð þétt og fellur í fallegar flögur. Við leituðum að þessu sinni til vinafólks okkar Helgu, Ingibjargar og Steinars Berg sem reka ferðamannstaðinn Fossatún í Borgarfirði. Óvíða er fallegra en þar og aðstaða fyrir gesti og gangandi til fyrirmyndar.

Innihald:

800 gr. þorskur
½ rauð paprika
½ gul paprika
1 laukur
1 grænt epli
50 gr. smjör
2 dl. Matreiðslurjómi
Pipar og salt
Soyasósa
Season all

Aðferð:

Roðflettið fiskinn og skerið í bita. Brúnið á báðum hliðum í heitu smjöri, stráið smá salti og pipar yfir. Takið fiskinn af pönnunni. Saxið laukinn, paprikuna og eplið og látið krauma í smjörinu. Hellið rjómanum yfir og kryddi með soya og season all. Látið sjóða í um það bil 5 mínútur. Setjið fiskinn út í og látið malla í 3 til 5 mínútur.
Þennan rétt er gott að bera fram með soðnu blómkáli, gulrótum og hrísgrjónum.