-->

Pottþéttur fiskréttur

Starfsfólk endurhæfingardeildar LSH á Grensási tók fyrir nokkrum árum saman litla bók með uppskriftum frá sér. Bókin heitir hinu skemmtilega nafni Endurnæring, okkar bestu uppskriftir. Þar er að finna uppskriftir að 90 réttum, forréttum, aðalréttum, eftirréttum, súpum, sósum kökum og sælgæti. Höfundar eru 40. Við notum hér uppskrift frá Svanhvíti sálfræðingi, sem hún nefnir pottþéttur fiskréttur og er það orð að sönnu, rétturinn er alveg pottþéttur, klikkar ekki. Hún gefur jafnframt upp spari- og hversdagsútgáfu og svo er bara að velja eftir því sem við á.

Innihald, spariútgáfa:
200 gr. skötuselur
200 gr. lúða
200 gr. rækja
200 gr. hörpudiskur
Hversdagsútgáfa
200 gr. ýsa
200 gr. þorskur
200 gr. rækja
200 gr. tilbúin skelfiskblanda
300 gr. frosið brokkoli
1 saxaður laukur
Smá olía
1 dós sýrður rjómi
1 dós gúrkusósa (Heinz fæst í Nóatúni og Hagkaupum)
1 búnt steinselja
50 gr. majones
Safi úr hálfri sítrónu
Karrý, salt og pipar
1 bolli hvítvín eða mysa
Aðferðin:
Olía er sett í pott, laukurinn mýktur en ekki steiktur, fiskurinn, nema rækjurnar, settur út í ásamt hvítvíni og sítrónusafa. Látið malla í mesta lagi tær mínútur. Allt er síðan veitt upp úr og soðið látið sjóða niður í um það bil 2 dl. og það síðan kælt niður. Blandað saman gúrkusósu, sýrðum rjóma og kryddi og soðið hrært út í. Eldfast mót smurt og soðið brokkoli sett í botninn, síðan fiskurinn og rækjurnar og að lokum sósan. Hitað í ofni við um það vil 180° C, þar til það er kominn örlítill brúnn litur á yfirborðið. Borið fram með hrísgrjónum.