Rækja með spergilkáli

Deila:

Nú prufum við eitthvað aðeins framandi. Við erum vön íslensku rækjunni (pandalus borealis). Hana notum við líklega mest í salat eða blandaða fiskrétti. Hlýsjávarrækjan er mun stærri en okkar rækja og gefur því meiri möguleika í matreiðslu. Hér kemur einn flottur réttur sem byggist á slíkri rækju og er virkilega bragðgóður og líklega hollur líka.

Innihald:

1 bolli hvít hrísgrjón

500g hlýsjávarrækjur, ósoðnar, skelflettar og garnhreinsaðar

1 msk kornsterkja (sósujafnari)

Salt og nýmalaður pipar

3 msk matarolía

2 til 3 hvítlauksrif, marin

Tveir bollar spergilkáli

½ rauð paprika, skorin í teninga

¼ bolli sojasósa

2 msk hrísgrjónaedik

1 tsk hunang

ristuð sesamfræ

Aðferð:

  1. Sjóðið grjónin samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Blandið rækjunni saman við kornsterkjuna í skál og látið standa í 5 mínútur.
  2. Blandið saman í skál hráefnum í sósuna, sojasósu, hrísgrjónaediki og hunangi.
  3. Setjið vokpönnu eða venjulega pönnu á háan hita. Setjið eina msk. af olíu út á og steikið síðan rækjurnar í 4-5 mínútur, eða þar til þær verða örlítið stökkar. Kryddið eftir smekk með salti og pipar. Færið rækjurnar svo yfir í skál og leggið til hliðar.
  4. Bætið 2 msk. af olíu út á sömu pönnu og steikið hvítlaukinn þar til hann verður gullinn. Bætið þá spergilkáli og papriku út á og steikið í eina mínútu.
  5. Setjið þá rækjurnar aftur á pönnuna og hellið sósunni yfir. Hrærið vel í og látið malla í eina mínútu, eða þar til spergilkálið er orðið mjúkt. Takið pönnuna af hitanum, stráið sesamfræi yfir og berið fram með hrísgrjónum.

 

Deila: