Reddaðist í lok vertíðar

139
Deila:

Vertíðin í vetur gekk bara vel. Tíðin nokkuð góð og aflinn mikill. Það var að vísu einn ljóður á þessu. Það var svo mikil ýsugengd, sem gerði okkur erfiðara fyrir. En það reddaðist í lok vertíðar,  „fæðingarorlofið“. Þá fór að verða minna um ýsuna í kantinum hjá okkur eða brúninni og við fórum að fá meira af þorski,“ segir Brynjar Kristmundsson á Steinunni SH , en hann hefur verið með bátinn á dragnót síðan 1994.

Hann áætlar að aflinn á vertíðinni hafi verið um 1.200 til 1.300 tonn. „Í síðustu 20 róðrunum vorum með með eitthvað 607 tonn. Og á fiskveiðiárinu erum við komir með um 1.600 tonn. Ætli mesti aflinn í róðri hafi ekki farið upp í um 50 tonn. Það er alveg ágætis róður. Nú er Steinunn komin í slipp í Njarðvíkunum í hefðbundið viðhald og eftirlit. Það er alltaf eitthvað smotterí sem þarf að gera.“

Fiskurinn seldur á mörkuðum

Það eru níu í áhöfninni, svo það nóg að gera hjá körlunum að blóðga og og ganga frá fiskinum, en honum er landað átta til tíu tíma gömlum. Alveg úrvals hráefni.  „Þetta fer svo allt á markað hjá okkur. Við höfum selt á mörkuðum alveg frá því við byrjuðum á þessu. Verðin í vetur hafa bara verið nokkuð þokkaleg. Við höfum séð það verra en þetta, þrátt fyrir Covid. Verðið dettur reyndar alltaf niður þegar kemur fram í seinnipartinn í mars, þegar fer að berast mikið að. Þá lækkar verðið alltaf, en það er ekkert verra en það hefur verið. Jafnvel eitthvað skárra en árið í fyrra. Það er bara framboðið sem ræður verðinu.“

Brynjar Kristmundsson með barnabarnið Steinunni.

Skil ekki að hægt sér að gera út á kvótaleigu

Brynjar er með dragnótina að mestu leyti í Breiðafirðinum allt árið, en síðustu ár hafa þeir reyndar verið fyrir vestan á haustin. Byrjað þar í september og verið fram í endaðan nóvember. „Svo höfum við byrjað heima í janúar. Reyndar fórum við ekkert vestur í fyrra, en það var fyrsta árið í áratugi, sem við höfum ekki farið vestur.  En það var allt í lagi líka. Við stoppum svo alltaf á sumrin. Við höfum verið að stoppa upp úr fimmtánda maí, en erum nú viku seinna að stoppa. Ég hélt reyndar að við yrðum ekki búnir fyrr en fyrripartinn í júní, en þetta gekk bara svo vel í restina hjá okkur og við kláruðum það sem við ætluðum okkur. Við klárum venjulega kvótann í maí og erum ekkert að leiga til okkar nema þá í skiptum, þorsk fyrir eitthvað annað til dæmis. Ég get ekki skilið að það sé hægt að gera út á kvótaleigu, en menn gera þetta samt. Ég vil ekki gera það og hef ekki gert það. Ég hef hins vegar verið að auka aflaheimildirnar með kaupum á aflahlutdeild eftir því sem efni hafa verið til.“

Á að taka það af okkur sem við höfum keypt?

En hvað segir Brynjar um fiskistjórnunina, er hann sáttur við hana?

„Að vera sáttur, hvenær er maður sáttur eða ósáttur? Það er sama. Við höfum búið við þetta kerfi í langan tíma og verðum að vinna með því. Við eigum ekki kost á öðru og hvort eitthvað annað og betra eigi eftir að taka við veit ég ekki. Ég verð vonandi hættur ef að því kemur að það eigi að taka kvótann af okkur og bjóða okkur hann svo aftur til kaups á uppboði. Við erum búnir að berjast í því að kaupa veiðiheimildir til að fá að nýta þær samkvæmd gildandi lögum. Það verður þá að sýna mér hvernig á bæta það sem af okkur verður tekið og við höfum keypt. Það gengur ekki að taka þetta af okkur og senda okkur svo til Spánar. Það verður að sýna okkur framá hvað við eigum að fá í staðinn.“

Byrjaði sem háseti á fermingarárinu

Þeir fiska vel í dragnótina á Steinunni.

Hvernig sem þetta fer allt saman segir Brynjar að það fari að styttast í því að hann hætti í útgerðinni. „Ég byrjaði þessu sem háseti árið 1966, árið sem ég fermdist á bát með pabba. Síðan fór ég að leysa hann af og varð skipstjóri um 1972. Svo kemur að því að ég kaupi þennan bát, Steinunni 1990 og þar  hef ég verið síðan. Við erum búnir breyta henni nánast allri á þessum tíma. Settur á gafl að aftan, skipt um brú og allt endurnýjað niðri líka. Þetta var á þeim tíma sem þurfti að  tonn á móti tonni í úreldingu ef þú ætlaðir þér að kaupa nýtt skip. Við höfðum engin efni á því og fórum því þá leið stækka og laga skipið. Þetta þetta er því fínasti bátur miðað við aldur.  Hefur alltaf verið vel viðhaldið,“ segir Brynjar Kristmundsson.

Viðtalið er einnig birt í blaðinu Sóknarfæri, sem gefið er út af Ritformi. Blaðið má finna á heimasíðu Ritforms á slóðinni:

Deila: