Reyk-ýsu-plokkfiskur

Deila:

„Góður plokkfiskur er herramannsmatur og vel til þess fallinn að matbúa og bera fram á ýmsa vegu.“  Svo segir sögumaður á vefsíðunni krydd og krásir og heldur áfram: „Ég útbý gjarnan góðan plokkfisk þegar ég fæ erlenda gesti í heimsókn og viðbrögðin eru alltaf mjög góð.  Þessi mjög svo íslenski hversdagsréttur er tilvalið að bera fram í veislum, t.d. sem smárétt, forrétt, já eða aðalrétt – því plokkfisk er einfalt að setja í hátíðarbúning svo sem með því að gratinera hann.  Galdurinn er eins og ávallt ferskt og gott hráefni.“ Við erum alveg sammála enda miklir aðdáendur plokksfisks og mælum eindregið með þessari uppskrift.

Innihald: 

  • 1/2 – 1 laukur, smátt skorinn
  • 40 gr. smjör
  • 600 gr. reykt ýsuflök
  • 300 gr. kartöflur
  • 2 dl. jurtarjómi eða matreiðslurjómi
  • 1/2 rauð paprika, skorin í smáa teninga
  • vorlaukur, graslaukur eða steinselja, smátt skorið
  • pipar og ef til vill smá salt

Aðferð:

Sjóðið kartöflurnar.

Bræðið smjör á pönnu og látið laukinn svitna í smjörinu í um það bil fimm mínútur, eða þar til hann er glær.

Roðflettið ýsuflökin og skerið í bita. Bætið ýsunni út á pönnuna ásamt rjómanum og látið sjóða við vægan hita í um það bil 8-10 mínútur. Skrælið heitar kartöflurnar, skerið í litla bita og hrærið/stappið saman við fiskinn.  Bragðbætið með nýmöluðum svörtum pipar og ef til vill salti en gætið þess að reykta ýsan er yfirleitt fremur sölt svo ekki er þörf á að salta mikið.

Rétt áður en rétturinn er borinn fram er papriku og vorlauk eða graslauk hrært saman við.

Berið fram með einföldu og góðu salati og rúgbrauði.

 

Deila: