Ristu upp síðuna á freigátunni

234
Deila:

„Ég fór hvern einasta túr á Baldri með Höskuldi Skarphéðinssyni, skipherra, sem var alveg eitilharður og hataði Tjallann. Baldur var mjög heppilegur í þetta verkefni. Hann var svo lipur, miklu snúningsliprari en varðskipin. Það var nánast hægt að snúa honum á punktinum. Hann var líka góður í að verjast árásum freigátnanna. Það voru keyptar ýtutennur sem vélstjórarnir slípuðu til og settu á þær egg og voru síðan settar á afturhornin á honum,“ segir Halldór B. Nellett, fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni í samtali í jólablaði Ægis. Hann fer þar yfir ferilinn og ræðir meðal annars um baráttu varðskipanna við Bretana í þorskstríðunum. Þessi þorskastríð voru meira og minna í gangi frá haustinu 1972 til fyrsta júní 1976 með nokkurra mánaða hléi, þegar loks var samið.

„Ég var oft á stýrinu hjá Höskuldi, við vorum tveir hásetar alltaf fastir á stýrisvakt, hvor með sitt hlutverk. Þegar freigáturnar komu upp að okkur og við sáum að áreksturinn var yfirvofandi fór Höskuldur út á væng og sagði okkur nákvæmlega hvernig hann vildi stýra og við hlýddum því bara og tókst ansi oft að láta áreksturinn vera þannig að þegar freigáturnar komu æðandi að okkur þá rákum við annað hvort afturhornið, stjórnborð eða bakborð eftir því sem við átti í síðurnar á þeim. Hann var ansi lunkinn við þetta karlinn að hreinlega stinga þær á hol með ýtutönnunum. Það þurfti bara að gerast einu sinni, því eftir það fóru þær beint í slipp. Þetta var rétt eins og dósahnífur. Það ristist ein freigátan sem hét Diomede upp með 6 til 8 metra skurði við yfirmannabarinn. Ég held að myndin af Filippusi hafi farið í sjóinn en þeim tókst að bjarga myndinni af drottningunni. Skipið fór ansi illa og þurfti frá að hverfa,“ segir Halldór í viðtalinu.

 

Deila: