Rjómasoðinn kinnfiskur með grænmeti

Deila:

Að nýta fiskinn eins og unnt er telst sjálfsagður hlutur í íslenskri útgerð og fiskvinnslu. Hér fer ekkert til spillis, en víða annars staðar er algengt til dæmis að henda fiskhausum eftir aðgerð úti á sjó. Íslendingar hafa reyndar lengi verið iðnir við að nýta fiskhausinn. Á árum áður voru hausar þurrkaðir í harðfisk og lengi hefur það tíðkast að gella fisk og kinna. Bæði gellur og kinnar eru frábær matur og sérstaklega eftir að hinir einstöku matreiðslumenn á Íslandi fóru matreiða þessar afurðir, sem áður voru nær eingöngu borðaðar soðnar, saltaðar eða ferskar.

Hér kemur mjög góð uppskrift að kinnfiski, sem fengin er út matreiðslubókinni Sælgæti úr sjó og vötnum. Hún er eftir Sigurvin Gunnarsson.

Innihald:

600 g kinnfiskur
4 dl rjómi
1 dl hvítvín
safi úr einni sítrónu
1 msk söxuð steinselja
salt og pipar
300 g grænmeti: gulrætur, blaðlaukur, seljustöngull og sveppir

Aðferð:

Skerið sveppina í sneiðar en annað grænmeti í ræmur.
Setjið allt hráefnið í pott og sjóðið við vægan hita i 2 mínútur
Takið kinnar og grænmeti upp úr pottinum og haldið heitu.
Látið sósuna sjóða í 2 mínútur til viðbótar. Ef þurfa þykir má bragðbæta hana með salti og pipar.
Skammtið kinnfiskinn og grænmetið á diska og hellið sósunni yfir.

Deila: