-->

Rólegt á makrílnum

„Þetta virðist ætla að byrja rólega en makríllinn er mun seinni á ferðinni en í fyrra,“ segir Guðmundur Huginn Guðmundsson, skipstjóri á Huginn VE-55 í samtali á heimasíðu LÍÚ.  „Það hefur varla sést sól á himni síðustu vikur. Það þyrfti helst að vera sól og stillt veður í tvo daga til að hækka aðeins hitastig sjávar en það skiptir miklu máli við makrílveiðar.“

Guðmundur segir að makríllinn sé á bilinu 270 – 330 grömm. „Við erum djúpt suður af Stokksnesinu og búnir að þvælast eitthvað um Suðausturlandið.“

Aðalsteinn Jónsson SU-11 og Guðmundur í Nesi RE-13 eru á svipuðum slóðum og Huginn. Fjölmargar útgerðir hyggjast senda skip sín til veiða síðar í mánuðinum. „Við erum að undirbúa veiðarnar þessa daganna og gerum ráð fyrir að Þorsteinn ÞH-360 og Heimaey VE-1 haldi til makrílveiða í kringum 24. júní,“ segir Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri hjá Ísfélaginu í Vestmannaeyjum.  „Reynslan hefur sýnt okkur að með því að bíða aðeins fáum við betri fisk sem er eftirsóknarverðari vara á markaði,“ segir Eyþór.
Á myndinni er Huginn VE á nótaveiðum.