-->

Rostungur í Reyðarfirði

Það var heldur óvenjuleg sjón sem blasti við Kjartani Reynissyni á Reyðarfirði í dag. Hann var að hjóla frá Fáskrúðsfirði að Reyðarfirði þegar hann sér eitthvert hlass í fjörunni. Í fyrstu taldi Kjartan þetta vera dauðan hval, en að hjólareiðatúr loknum þegar hann ætlaði að athuga málið sá hann að þarna var á ferðinni rostungur. Frá þessu var sagt á mbl.is.

„Við erum bara hérna tveir einir í heiminum, ég og rostungurinn,“ sagði Kjartan þegar mbl.is náði tali af honum í dag. Lá Kjartan þá skammt frá rostungnum. „Hann blæs heldur ógnandi ef maður nálgast hann,“ segir Kjartan sem telur hann vera tæpa 3 metra að lengd og örugglega vel á annað tonnið. „Hann er búinn að vera hér í sólinni í allan dag.“ Kjartani sýnist hann ekki vera á förum. Aðspurður hvort hann hafi einhvern tímann séð eitthvað þessu líkt segir Kjartan svo ekki vera þó hann hafi verið viðloðandi sjávarútveg lengi.
Þessi rostungur virðist hafa verið um þriggja metra langur og nálægt tonni að þyngd. Rostungar eru fremur sjaldséðir hér við land, en heimkynni þeirra á norðvesturhveli eru að mestu milli Grænlands og Kanada. Rostungurinn hafði síðdegis synt á haf út.
Eftirfarandi fróðleik um rostunga má finna a Wikipedia: Rostungar eru með einkennandi stórar skögultennur (langar vígtennur) úr efri skolti. Bæði kynin hafa þessar löngu tennur en brimlarnir hafa þó oftast lengri og þykkari. Tennurnar eru oftast um 50 sm álengd en þó hafa mælst tennur sem hafa verið allt að 100 sm. Fullorðinstennurnar sjást hjá rostungskópunum um eins og hálfs árs aldur. Á eldri dýrum eru tennurnar oft orðnar slitnar og stundum brotnar. Skögultennurnar nota rostungarnir til að róta í hafsbotninum þegar þeir leita að æti, til að brjóta öndunarop í ísinn, til að vega sig upp á ísjaka og til varnar.
Rostungar fylgja ísröndinni eftir þegar að hún færist árstíðabundið, en hafast ekki við á óbrotnum lagnaðarís. Þeir kafa iðulega allt niður að 80 metrar dýpt en geta við sérstakar aðstæður kafað allt niður í 180 metra dýpi. Þeir geta verið í kafi upp undir 30 mínútur.

Rostungar veiða einstaka sinnum fisk en lifa aðallega á botndýrum, aðallega botnhryggleysingjum eins og skeljar, skrápdýr, krabbadýr og þar að auki djúpsjávargróðri. Þeir róta upp botninum með skögultönnunum og leita uppi fæðuna með viðkvæmum grönunum.

Einu náttúrulegu óvinir rostunga eru maðurinn, háhyrningar og hvítabirrnir. Vitað er til að rostungar geti drepið hvítabirni.

Rostungar geta orðið um 50 ára gamlir, brimlarnir verða kynþroska um það bil tíu ára en urturnar þegar við 4 – 7 ára aldur. Fengitími er í janúar – febrúar en kóparnir fæðast í maí. Látrin annaðhvort á ísjaka eða upp á landi. Yfirleitt fæða urturnar einungis einn kóp sem eru 100 sm við fæðingu og er um 50 kg á þyngd. Kópurinn er syntur þegar við fæðingu. Þeir lifa einungis á spenamjólkinni fyrstu sex mánuðina áður en þeir fara að éta aðra fæðu, þeir eru hins vegar ekki afvandir fyrr en við tveggja ára aldur.
Myndina tók Kjartan Reynisson.