Rússlandsforseti ræsir hátækniverksmiðju reista á íslenskri tækni

Deila:

Vladimír Pútín Rússlandsforseti ræsti uppsjávarverksmiðju fyrir rússneska útgerðar- og
fiskvinnslufyrirtækið Gidrostrov á Eastern Economic Forum í Vladivostok í gær.
Íslensku tæknifyrirtækin Skaginn 3X, Frost og Rafeyri hafa sett up leiðandi tæknibúnað í
verksmiðjunni, sem staðsett er á Shikotan-eyju í Kúríleyjaklasanum við austurströnd Rússlands.
Fyrirtækin undirrituðu samninginn um uppsetninguna á síðasta ári og virði samningsins hleypur á
milljörðum íslenskra króna.
Verksmiðjan er búin heildarlausnum frá fyrirtækjunum þremur til að flokka, pakka og frysta 900 tonn
af uppsjávarfiski á sólarhring.
„Við hjá Skaganum 3X erum einstaklega stolt af verksmiðjunni og þakklát fyrir tækifærið til þess að
taka þátt í nútímavæðingu rússneska sjávarútvegsins,“ segir Pétur Jakob Pétursson, sölustjóri
Skagans 3X í Rússlandi.

Pétur Jakob Pétursson, sölustjóri Skagans 3X í Rússlandi.

„Íslenskur sjávarútvegur er sjálfbær og einn sá tæknivæddasti í veröldinni. Okkur hefur tekist að
einblína á gæði vörunnar og þar af leiðandi fengið hærra verð fyrir minni heildarafla. Tækni og
sjálfvirkni hefur spilað stórt hlutverk og stuðlað að eftirspurn eftir íslenskri þekkingu og lausnum,“
segir Pétur Jakob.
Skaginn 3X hefur á náð miklum árangri í heildarlausnum við vinnslu á uppsjávarfiski. Fyrirtækið
hannaði og setti meðal annars upp búnað með afkastagetu allt að 1.300 tonn á sólarhring fyrir
færeyska félagið Varðin Pelagic. Færeyska verksmiðjan er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum og
er staðsett á Suðurey. Frost og Rafeyri komu einnig að verkefninu fyrir Varðin Pelagic.
Skaginn 3X hefur nýverið lokið smíði á uppsjávarverksmiðju um borð í verksmiðjuskip fyrir evrópska
útgerðarfyrirtækið France Pelagique, sem byggir á þeirri tækni sem Skaginn 3X hefur þróað fyrir
landvinnslur á undanförnum árum.
Eastern Economic Forum er vettvangur Rússa til þess að kynna landið og stuðla að erlendri
fjárfestingu. Eigandi Gidrostroy-sjávarútvegsfyrirtækisins Alexander Verkhovskiy var viðstaddur
þegar Pútín ræsti verksmiðjuna á þriðja degi ráðstefnunnar, sem hófst á mánudaginn.

Deila: