Saga SVN og G.Run rifjuð upp

Deila:

Guðmundur Runólfsson hf. í Grundarfirði festi nýverið kaup á Bergey VE en Bergey var í eigu Bergs-Hugins, dótturfyrirtækis Síldarvinnslunnar í Vestmannaeyjum. Bergey hefur nú fengið nafnið Runólfur og lét úr höfn í Vestmannaeyjum 30. september sl. og hélt áleiðis til nýrrar heimahafnar í Grundarfirði. Til Grundarfjarðar kom skipið 1. október og var vel fagnað.

Í tengslum við kaupin á Bergey var ýmislegt rifjað upp um sögu Guðmundar Runólfssonar hf. og hvernig saga fyrirtækisins teygir anga sína austur til Neskaupstaðar. Á heimasíðu Síldarvinnslunnar er getið um tvennt í þessu sambandi og í báðum tilvikum koma skip sem bera heitið Runólfur við sögu.

 

Fyrsti Runólfur var smíðaður hjá Dráttarbrautinni í Neskaupstað árið 1947. Myndin er tekin þegar smíðinni
var að ljúka. Ljósm. Magnús Guðmundsson

Fyrsti Runólfur smíðaður í Neskaupstað

Síðla árs 1945 hófst bátasmíði á vegum Dráttarbrautarinnar hf. í Neskaupstað og var fyrsta verkefnið smíði á svonefndum ríkisbátum. Smíði á fyrsta ríkisbátnum lauk árið 1947 og var kaupandi hans Runólfur hf. í Grundarfirði en aðaleigandi fyrirtækisins var Guðmundur Runólfsson skipstjóri. Bátnum var gefið nafnið Runólfur og fékk einkennisstafina SH 135. Þarna var um að ræða fyrsta bátinn af allmörgum sem borið hafa nafnið Runólfur.

Runólfur var 39 tonn að stærð og var Guðmundur Runólfsson gagnrýndur töluvert fyrir  að hafa fest kaup á svo stórum báti. Töldu margir að báturinn myndi engan veginn henta til útgerðar frá Grundarfirði.

Að sögn Runólfs Guðmundssonar, sonar Guðmundar útgerðarmanns og núverandi stjórnarformanns Guðmundar Runólfssonar hf., reyndist þessi fyrsti Runólfur afar vel og með tilkomu hans var lagður grunnur að því fyrirtæki sem nú starfar á Grundarfirði og ber nafn föður hans. Það fiskaðist afar vel á þennan fyrsta Runólf en hann var gerður út á línu að heiman auk þess sem hann lagði stund á síldveiðar með nót og reknetum. Báturinn var gerður út frá Grundarfirði til loka ársins 1959 en þá var hann seldur úr byggðarlaginu. Hann var síðan dæmdur í þurrafúa árið 1967.

Fyrirtæki Guðmundar Runólfssonar óx og dafnaði á þeim tíma sem fyrsti Runólfur var gerður út og hefur vaxið mikið síðan. Nú fæst fyrirtækið við útgerð og fiskvinnslu ásamt því að reka netagerð og eru starfsmennirnir um 90 talsins. Eigendur fyrirtækisins nú eru sjö börn Guðmundar Runólfssonar og einn frændi þeirra. Þarna er því um sannkallað fjölskyldufyrirtæki að ræða.

Tilraunaveiðar á kolmunna

Kolmunnaveiðar við Ísland eiga sér ekki langa sögu. Lengi vel var litið á kolmunnann sem hinn mesta óþverrafisk og mótaðist það viðhorf á síldarárunum svonefndu á sjöunda áratug síðustu aldar. Stundum kom það fyrir að síldarbátarnir köstuðu á kolmunnatorfur og þá smaug fiskurinn í hvern möskva og sat þar kyrfilega fastur. Oftast þurfti að „snörla“ nótina inn og stíma í land og við tók löng lota við að berja kolmunnann úr nótinni. Þetta var erfitt verk og með eindæmum óþrifalegt og leiðinlegt.

Þegar kom fram á áttunda áratug síðustu aldar hóf Síldarvinnslan að hyggja að kolmunnaveiðum með flotvörpu enda var fiskurinn mikið veiddur af erlendum þjóðum. Þegar nótaskipið Börkur var keypt árið 1973 var því fyrst og fremst ætlað að leggja stund á loðnu- og kolmunnaveiðar og hóf hann kolmunnaveiðarnar strax vorið 1973. Hinn 19. maí kom hann með fyrsta farminn til löndunar og reyndist hann vera 200 tonn. Miklar vonir voru bundnar við veiðarnar og þóttu þær fara þokkalega af stað. Reyndin varð hins vegar sú að kolmunnaveiðarnar gengu ekki vel hjá Berki og varð heildarafli skipsins þetta sumar einungis 370-380 tonn. Eftir þessa slöku byrjun varð hlé á kolmunnaveiðum við landið.

Árið 1976 ákváðu stjórnvöld að hefja tilraunaveiðar á kolmunna úti af Austurlandi. Gerður var samningur við Guðmund Runólfsson hf. í Grundarfirði um að togari fyrirtækisins, Runólfur, yrði nýttur til veiðanna. Samningurinn kvað á um að veiðarnar skyldu fara fram á tímabilinu 12. júlí til 26 ágúst.

Veiðar Runólfs hófust með flotvörpu en undir lok tímabilsins veiddi skipið kolmunnann í botnvörpu á Glettinganesgrunni. Afli skipsins á tímabilinu var 1.100 tonn og var megninu af honum landað í Neskaupstað en einnig var landað á Hornafirði og í Þorlákshöfn. Í Neskaupstað voru gerðar tilraunir með ýmsar vinnsluaðferðir á kolmunnanum. Þar var framleiddur marningur úr honum, hann var frystur til beitu og eins var framleidd skreið sem seld var til Nígeríu. Nokkrir byrjunarörðugleikar voru við vinnsluna en með tímanum tókst að ná ágætum tökum á henni.

Skipstjóri á Runólfi á tilraunaveiðunum var í fyrstu Axel Schiöth en síðan Runólfur Guðmundsson. Magni Kristjánsson, skipstjóri á Berki, var um borð í Runólfi framan af en í ágústmánuði hélt Börkur til kolmunnaveiða á ný eftir þriggja ára hlé.

Í fréttum af tilraunaveiðum Runólfs segir að þær hafi gengið allvel og hafi skipið fengið allt upp í 50 tonn í holi.

 

Deila: