-->

Saltfiskur að hætti Hawaíbúa

Við Helga höfum aldrei komið til Hawaí og eigum væntanlega ekki eftir að gera það. En við borðum stundum veislumat að hætti þeirra sem þar búa. Líklega dettur fáum í hug að það sé saltfiskur, en sú er svo sannarlega raunin. Þessa réttar höfum við notið mjög oft á undaförnum árum, en uppskriftina er að finna í hinni frábæru uppskriftabók Suðrænir saltfiskréttir sem samin var að frumkvæði SÍF, Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda, í tengslum við 60 afmæli SÍF og kom út 1992. Höfundar bókarinnar eru Jordi og Maite Busquets. Í þessari bók er að finna mikið af uppskriftum að saltfiskréttum á suðræna vísu, afar frábrugðnum því sem við sem fædd eru upp úr miðri síðustu öld ólumst upp við. Í sunnan verðri Evrópu er saltfiskur veislumatur. Það er hann einnig í Karabíska hafinu og meira að segja á Hawaí.

Innihald:
8 saltfiskbitar, hver um 75 g
4 sneiðar niðursoðinn ananas
1 stór laukur
3 hvítlauksrif
Steinselja
Hveiti
Vínedik
Salt
Olía
Aðferð:
Útvatnið saltfiskinn, sé þess þörf og þerrið. Veltið fiskbitunum upp úr hveiti og steikið í mikilli olíu, þar til fiskurinn er orðinn gullinn að lit og er steiktur í gegn.
Skerið laukinn í þunnar sneiðar, veltið þeim upp úr hveiti og steikið létt í vel heitri olíunni.
Þerrið ananassneiðarnar mjög vel með bréfi, veltið upp úr hveiti og steikið.
Færið steiktan saltfiskinn upp á fat, stráið yfir steiktum laukhringjum og steiktum ananas.
Skerið hvítlaukinn í sneiðar. Steikið þar til hann verður gullinn að lit upp úr dálitlu af nýrri olíu. Taki pönnuna af hellunni, bætið smátt skorinni steinselju út í olíuna og 2 msk af ediki. Hellið þessu yfir fiskinn og berið fram.
Meðlæti með þessum fína rétti getur verið af ýmsum toga en okkur hjónum finnst best að vera einfaldlega með soðnar sætar kartöflur, vel maukaðar.
Spánverjar drekka rauðvín með góðum saltfiski. Það gerum við líka, en eins og venjulega velur hver fyrir sig.

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Ofnbakaður gullkarfi með chili, hvítlauk og...

Nú leitum við til Norðanfisks eftir góðri uppskrift. Fyrirtækið framleiðir gífurlega mikið af fiski sem tilbúinn er til matreiðs...

thumbnail
hover

Tengdamóðirin eftirminnilegasti vinnufélaginn

Maður vikunnar er Ólafsfirðingur búsettur á Dalvík. Hann byrjaði ungur að vinna í fiski hjá Sigvalda Þorleifs, en var síðar á ...

thumbnail
hover

Öflugur liðstyrkur í veiðieftirliti Fiskistofu

Fiskistofa réði nýverið sex nýja eftirlitsmenn til starfa í stað eldri starfsmanna sem látið hafa af störfum. Nýju veiðieftirlit...