Saltfiskur frá Eyjum afar vel þegin jólagjöf í Portúgal

Deila:

Tveggja metra hátt jólatré úr saltfiski blasir við á matartorgi stórrar verslunarmiðstöðvar í Portúgal á aðventunni. Það segir allt sem segja þarf um virðingarsess saltfisks í jólahefðum Portúgala og þar hefur íslenskur saltfiskur sérstöðu. Á aðfangadagskvöld er gefið mál að saltfisk og saltfiskrétti sé að finna á langflestum veisluborðum fjölskyldna um allt Portúgal. Um þetta er fjallað á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

„Helstu forsendur fullkominnar hátíðarmáltíðar eru stór, íslenskur saltfiskur, góð ólívuolía og gott rauðvín! Íslenskur saltfiskur er þekktur fyrir gæði og fyrir hann eru menn einfaldlega til í að borga meira en fyrir annan saltfisk á markaðinum.

Saltfiskur Nuno Araújo t.h. selur fagran íslenskan „saltfiskgítar“ yfir borðið. Svona hafa Portúgalir þetta!

Í desember seljum við meira en á öðrum tímum ársins og stemningin er mikil og skemmtileg,“ segir Nuno Araújo, framkvæmdastjóri Grupeixe, framleiðslu-, dreifingar- og sölufyrirtækis fyrir saltfisk í borginni Aveiro í norðurhluta Portúgals. Vinnslustöðin eignaðist Grupeixe og tók við rekstri fyrirtækisins um mitt ár 2019.

„Við seljum fisk mest í verslanir og mötuneyti en í desember kaupa fyrirtæki líka saltfisk til að gefa starfsmönnum sínum eða viðskiptavinum í tilefni jóla. Ég get nefnt líka að stjórnvöld í borg í grenndinni voru að kaupa af okkur 550 fiska til að færa borgarstarfsmönnum sínum í jólagjöf.

Það þykir höfðingsskapur að gefa íslenskan saltfisk og sérlega eftirsóknarvert að fá slíka gjöf frá atvinnurekanda sínum!

Núna í desember koma fjölskyldur hingað í vinnsluna til okkar til að velja sér saltfisk til að gefa eða borða um jólin. Þannig erum við í milliliðalausu sambandi við neytendur. Í þessum heimsóknum skapast alveg sérstök hátíðarstemning í fyrirtækinu okkar.“

Mestu þorskneytendur veraldar

Leiðir Vinnslustöðvarinnar og Portúgala í saltfiskviðskiptum hafa legið saman um árabil. Portúgalar eru umsvifamestu neytendur þorsks í heiminum. Þeir vilja saltfiskinn verkaðan á nokkuð annan hátt en til að mynda Spánverjar og Ítalir.

Toppur tilverunnar á aðfangadagskvöldi er að fá á veisluborðið þorsk, veiddan á vetrarvertíð við suður- og vesturströnd Íslands og saltaðan í samræmi við smekk og kröfur Portúgala.

Vinnslustöðin er fyrsta erlenda fyrirtækið sem eignast saltfiskfiskvinnslufyrirtæki í Portúgal og gerist þar með beinn þátttakandi í rótgrónum atvinnurekstri með tilheyrandi hefðum og sögu.

Grupeixe kaupir þorsk frá Íslandi, Noregi, Rússlandi og víðar að til að þurrka og dreifa á mörkuðum sínum.

  • Hvernig matreiða svo Portúgalar saltfiskinn okkar? Góð spurning hjá þjóð sem hefur fram á allra síðustu ár helst ekki gert annað við þessa lúxusvöru en að henda henni í pott í bitum, sjóða og bera á borð með kartöflum, smjöri eða bræddri feiti/hömsum!
  • Sagan segir að portúgölsk meðalfjölskylda ráði yfir 365 uppskriftum að saltfiskréttum, einni fyrir hvern dag ársins. Allt í allt séu að minnsta kosti þúsund saltfiskuppskriftir þekktar í Portúgal og þar er ekki íslenska „uppskriftin“ meðtalin …
  • Í Morgunblaðinu 28. nóvember 2008 var birt viðtal við Guðlaugu Rún Margeirsdóttur, þá nýflutta til Íslands eftir að hafa búið í 20 ár í Portúgal. Hún fjallar um jólasiði og matarsiði Portúgala og birtir uppskrift að saltfiskrétti sem hún hugðist bera á borð þá á jólum.

 

 

Deila: