Saltfiskur á ítalska vísu

385
Deila:

Eins og við höfum alltaf sagt, er fiskur eitthvert besta hráefni sem hægt er að fá til matargerðar. Því veldur fjölbreytileikinn sem fiskurinn gefur í matreiðslu. Möguleikarnir eru endalausir, það er bara að virkja hugmyndaflugið eða fara á netið og leita af uppskriftum til að fá frekari hugmyndir. Líklega er það ekki algengt að matreiða saltfisk á sítrónurísottóbeði með ítalskri grænmetissósu. En það svínvirkar, bara að prufa og njóta.

Innihald:

Rísottó:

2 msk. smjör eða olía

1 laukur, fínt saxaður

2 bollar rísottó grjón

1 bolli hvítvín

1l heitt vatn

1 tsk. salt

¼ tsk. hvítur pipar

2 sítrónur, safi og börkur

Gremolatasósa:

½ bolli söxuð steinselja

1 sítróna, raspaður börkur og 1 og ½  matskeið af safa

1 og ½ dl. ólífuolía

1 hvítlauksrif, fínt saxað

dálítið salt

Þorskurinn:

800g léttsöltuð þorskflök með roði í fjórum jöfnum beinlausum stykkjum

sítrónupipar

ólífuolía

Smátt saxaður graslaukur og börkur af sítrónu

Aðferð:

Rísottó:

Bræðið smjör í meðalstórum potti á miðlungshita. Bætið lauknum út í og látið hann krauma í 5 til 7 mínútur. Bætið  grjónunum út í og látið krauma í 5 mínútur og hrærið reglulega í þeim. Bætið hvítvíninu út í og látið krauma á lágum hita þar til það hefur gufað upp. Hellið þá lítra af heitu vatni út á í smáum skömmtum og hrærið stöðugt uns vökvinn er gufaður upp og grjónin orðin hæfilega mjúk /al dente). Þetta tekur 15 til 20 mínútur. Saltið smávegis og bætið röspuðum berki af tveimur sítrónum út í og safa úr 1 og ½ sítrónu. Hrærið vel í og leggið til hliðar, en haldið heitu.

Gremolatasósa:

Setjið allt innihaldið í skál og hrærið mjög vel saman.

Fiskurinn:

Hitið ólífuolíu eða smjör í góðri pönnu á meðalhita. Þurrkið fiskinn og kryddið  með sítrónupipar á báðum hliðum.  Hækkið hitann og setjið fiskinn á pönnuna með roðhliðina niður og steikið í 5 mínútur þar til roðið er orðið gullið og stökkt. Lækkið hitann og snúið fiskinum og steikið í 2-3 mínútur eftir þykkt stykkjanna.

Þegar fiskurinn er tilbúinn, bætið ½ bolla af heitu vatni út í rísottóið og hrærið upp í því.

Skiptið rísottóinu á fjóra diska. Leggið fiskbitana ofan á með roðhliðina upp. Setjið gremotata sósuna á diskana við hlið grjónanna og dreifið graslauknum og sítrónuberki yfir fiskinn. Berið fram með smjörsteiktum aspas eða sykurbaunum.

 

Deila: