Samherji birtir pósta máli sínu til stuðnings

Deila:

Greiðslur Kötlu Seafood til ERF 1980 árið 2014 voru til að fá kvóta frá Fishcor, ríkisreknu sjávarútvegsfyrirtæki í Namibíu, á afslætti. Fjármunirnir enduðu í vasa Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og James Hatuikulipi, stjórnanda Fishcor. Hafa þeir verið handteknir vegna málsins ásamt Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, og fleirum samkvæmt frétt í Fréttablaðinu í dag. Fréttin er annars svohljóðandi:

„Reikningarnir eru tveir, annar upp á 1,5 milljónir namibískra dollara fyrir húsaleigu og hálf milljón fyrir endurbætur á frystigeymslu í Walvis Bay. Alls gera það um 16,5 milljónir króna á núverandi gengi. „Ég hef aldrei séð þetta húsnæði og þegar ég var að standa í þessu fyrir hönd Samherja þá var það alveg ljóst að það var bara verið að finna einhvern „dummy“-samning til að dekka hina reikningana í bókhaldinu,“ útskýrði Jóhannes Stefánsson, uppljóstrari og fyrrverandi stjórnandi Namibíufélaga Samherja, í þætti Kveiks í nóvember.

Samherji hafnar alfarið vitneskju um greiðslurnar til ERF 1980 og hefur afhent Fréttablaðinu tölvupósta, sem ekki er að finna í gögnum WikiLeaks, máli sínu til stuðnings. Í tölvupósti sem Arna Baldvins McClure, lögmaður Samherja, sendi á Jóhannes í mars 2015 óskar hún eftir yfirliti yfir alla samninga Kötlu Seafood. Í yfirlitinu sem Jóhannes sendi til baka er ekki að finna leigusamninginn við ERF 1980.

Egill Helgi Árnason, sem starfaði hjá Samherja á Spáni, tók við starfseminni í Namibíu árið 2016. Í tölvupósti sem hann sendi á Ingólf Pétursson, fyrrverandi fjármálastjóri Samherja í Namibíu, í lok nóvember 2016 spyr hann um samningana. „Ok þá er ég kominn með 2 svona samninga. Þennan sem þú sendir mér og svo við Erongo Clearing and… eru einhverjir fleiri svona samningar í gangi?“ Ingólfur svaraði að samningurinn við ERF 1980 væri útrunninn. „Ég get ekki verið fullviss um að ég hafi fengið alla samninga í hendurnar sem JS gerði. Þessir þrír samningar hef ég í tengslum við strákana og hefur verið greitt af í minni tíð. Aðrir samningar tengdir þeir eru í gegnum félögin sem fá kvóta,“ segir í svari Ingólfs. Í kjölfarið bað Egill um afrit af samningnum við ERF 1980.

„Þetta eru strákarnir. Litlu tölurnar eru söluþóknanir á því sem selt er til Robur Logistics. Aðrar greiðslur eru vegna ráðgjafarsamnings sem gildir til ársloka 2018,“ svaraði Ingólfur. Egill spyr þá: „Hvaða fyrirtæki er þetta? Hver á það ect. Hvað er verið að greiða fyrir hér?“ Er það afstaða Samherja að ef fyrirtækið hefði vitað um mútugreiðslur til Shanghala hefði leigusamningurinn við félagið fylgt með í yfirliti Jóhannesar til Örnu og þá hefði Egill Helgi ekki þurft að spyrja Ingólf um samninginn.

Fréttablaðið hefur ekki náð tali af Jóhannesi. Í viðtali í Kastljósi á miðvikudagskvöld sagði hann skýringar Samherja ekki standast skoðun, hann hefði einungis borið ábyrgð á tuttugu eða þrjátíu prósentum af mútugreiðslum í Namibíu. „Mér finnst nú þessar yfirlýsingar hjá Samherja hafa verið skrítnar og muni nýtast í rannsóknum á hendur Samherja. Því þetta stenst ekkert. Til dæmis er búið að handtaka sex hákarla og er eitt málið að þeir hafi þegið mútur frá Samherja. Ég er nú bara ábyrgur fyrir eitthvað um tuttugu, þrjátíu prósent af þeim,“ sagði Jóhannes.

Ingólfur vissi um raunverulegan tilgang ERF 1980. Kemur það fram í tölvupóstsamskiptum frá árinu 2014 þar sem Ingólfur spyr Jóhannes um félagið. „Þetta er 1.500.000 fyrir flokkinn. 500.000 fyrir Seaflower kvótann. Átt að vera kominn með nótur fyrir þessu,“ svarar Jóhannes. Ingólfur, sem starfar ekki hjá Samherja í dag, segir að hann hafi ekki sagt neinum hjá Samherja frá tilvist þessa félags. „Nei, ég sagði engum hjá Samherja frá þessu félagi eða því sem Jóhannes sagði mér,“ segir Ingólfur. Vissi einhver annar af þessu félagi? „Mér þykir það mjög ólíklegt.“

Deila: