Samherji semur við Slippinn um vinnsludekk í Kaldbak og Björgúlf

Deila:

Samningar hafa verið undirritaðir milli Samherja og Slippsins Akureyri um ný vinnsludekk í
ísfisktogaranna Kaldbak EA og Björgúlf EA. Áætlað að Slippurinn klári uppsetningu á vinnsludekkinu í
Kaldbak síðla sumars og svo uppsetningu í Björgúlf snemma á næsta ári. Á síðasta ári afhenti
Slippurinn vinnsludekk í Björg EA sem er systurskip Kaldbaks og Björgúlfs.
„Vinnsludekkið í Björgu EA hefur komið vel út á þessu fyrsta ári og hefur aflameðferðin verið fyrsta
flokks og ekki að ástæðulausu að fiskurinn úr Björgu er sá besti sem hefur verið í unninn í fiskvinnslu
Útgerðarfélags Akureyrar. Þjónustan og eftirfylgni Slippsins með vinnsludekkinu í Björgu hefur verið
til fyrirmyndar og lítið um vandamál frá því að skipið fór í sína fyrstu veiðiferð. Það lá því beinast við
að semja aftur við Slippinn um hönnun, smíði og uppsetningu á Kaldbak EA 1 og Björgúlf EA 312,“
segir Hjörvar Kristjánsson, verkefnisstjóri nýsmíða hjá Samherja.
Í skipunum verða bæði kæli og blóðgunarsniglar frá norska fyrirtækinu Stranda sem Slippurinn er í
samstarfi með en einnig verða lyftur frá fyrirtækinu Holmek. Slippurinn hannar lausn svo að fiskurinn
verði settur í kör uppi á vinnsludekkinu og fer svo niður í lest með lyftum frá Holmek, sú lausn verður
einnig sett í Björgu EA.
„Við viljum bjóða viðskiptavinum okkur upp á bestu og þekkustu lausnirnar hverju sinni. Það var því
ákveðið í sameiningu með Samherja að kaupa snigla frá Stranda og lyftur frá Holmek“. Við þekkjum
þessi fyrirtæki vel og erum að vinna með þeim í öðrum verkefnum“ segir Ágúst Guðnason
yfirhönnuður hjá Slippnum á Akureyri.
Við hönnun á vinnsludekkjunum í Kaldbak og Björgúlf var nýtt það góða úr Björgu sem snýr að
aðgengi að þrifum, gönguleiðum, aðgerðarastöðunni og aflameðferðinni.
„Slippurinn og Samherji lögðu áherslu á að hafa vinnsludekkin einföld og skilvirk, það skilar sér í betri
og öruggari aflameðferð og minnkar áhættuna á miklu viðhaldi sem skiptir bæði okkur og Samherja
miklu máli,“ segir Ágúst.

Deila: