Samkomulag við Breta um framtíðarsamstarf í sjávarútvegsmálum undirritað

67
Deila:

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrar Íslands og Bretlands, Kristján Þór Júlíusson og Victoria Prentis, undirrituðu í dag samkomulag um framtíðarsamstarf ríkjanna í sjávarútvegsmálum. Með samkomulaginu er stofnað til reglulegs samráðs til að viðhalda og efla gott samstarf ríkjanna á sviði sjávarútvegs eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Stofnað er til þessa samráðsvettvangs á grundvelli almennrar samstarfsyfirlýsingar Íslands og Bretlands um sameiginlega sýn ríkjanna fyrir 2030, sem undirrituð var í maí á þessu ári. Þessi vettvangur verður nýttur til samstarfs á flestum sviðum sjávarútvegs og tengdum greinum, svo sem skipti á reynslu og þekkingu á sviði fiskveiðistjórnunar, hafrannsókna, útgerðar, fiskvinnslu og nýsköpunar.

Samstarfið mun bæði ná til sameiginlegra verkefna og til samráðs vegna starfs alþjóðastofnana svo sem Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO). Þótt samstarfið verði byggt á samstarfi og samráði milli stjórnvalda í ríkjunum tveimur verður einnig áhersla á að efla samstarf fyrirtækja, rannsóknastofnana og ýmissa annarra aðila sem ekki eru á vegum ríkisins. Á hinum nýja samráðsvettvangi verða ekki samþykktar bindandi fiskveiðistjórnunarreglur, enda eru engir sameiginlegir fiskistofnar sem eingöngu finnast innan lögsagna Íslands og Bretlands.

Í inngangi samkomulagsins er lögð áhersla á mikilvægi sjálfbærra fiskveiða sem byggja á bestu vísindalegu ráðgjöf, sem leiðarljós beggja landa þegar kemur að málefnum hafsins. Samkvæmt samkomulaginu munu íslenskir og breskir fulltrúar funda árlega til að viðhalda nánum tengslum og ræða leiðir til að efla samstarf tengt sjávarútvegi: milli stjórnvalda, milli atvinnugreinarinnar í löndunum tveimur, milli rannsóknastofnana og með hverjum þeim öðrum hætti sem mun verða ríkjunum sameiginlega til framdráttar.

Við undirritunarathöfnina, sem fram fór í gegnum fjarfundabúnað vegna faraldursins, sagði Kristján Þór Júlíusson:

„Með þessu samkomulagi erum við að tryggja að útgangan úr Evrópusambandinu verði til þess að efla enn frekar það góða samstarf sem hefur verið milli okkar og Breta. Það gleður mig að finna að það er skýr gagnkvæmur áhugi hjá löndunum tveimur á að hafa náið samráð og samvinnu á sviði sjávarútvegs. Íslendingar og Bretar eru miklar vinaþjóðir sem hafa haft náin tengsl sín á milli í margar aldir. Þau tengsl hafa ekki síst verið á sviði sjávarútvegs. Bretlandsmarkaður er mikilvægur fyrir mörg íslensk fyrirtæki og bresk stjórnvöld eru mikilvægur samstarfsaðili íslenskra stjórnvalda innan margra alþjóðastofnana. Ég er sannfærðum um að þetta samkomulag sé upphafið að góðri samvinnu.“

Victoria Prentis, landbúnaðar-, sjávarútvegs- og matvælaráðherra Bretlands:

„Þetta samkomulag sýnir í verki áherslu okkar sem sjálfstæðs strandríkis á að starfa með öðrum, til að tryggja sjálfbæran og hagstæðan sjávarútveg til framtíðar. Samkomulagið sýnir hið sterka samband sem ríkir milli þjóðanna tveggja varðandi mál eins og verslun og sjávarútveg. Ég vil þakka Íslendingum fyrir þá uppbyggilegu nálgun sem þeir sýndu við gerð samkomulagsins. Við höfum þegar séð hve mikla möguleika samstarf milli okkar býður upp á í ljósi þeirra fjölmörgu mála og markmiða sem við eigum sameiginleg varðandi fiskveiðistjórnun, og við hlökkum til að halda þessu uppbyggilega samtali áfram.“
Á myndinni eru Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Victoria Prentis, sjávarútvegs-, landbúnaðar- og matvælaráðherra Bretlands við undirritunina í dag..

 

Deila: