Samstaðan er okkar sterkasta vopn

Þorlákur Halldórsson, fráfarandi formaður Landssambands smábátaeigenda brýnir félaga sína til samstöðu gegn frumvörpum sjávarútvegsráðherra um kvótasetningu á grásleppu og öðrum fyrirhuguðum breytingum á lögum um stjórn fiskveiðar sem snúa að atvinnu og byggðakvóta. Þetta gerir hann í eftirfarandi pistli, sem hann birtir á heimasíðu LS:

„Landssamband smábátaeigenda eru heildarsamtök smábátaeigenda.  LS samanstendur af 15 svæðisfélögum sem staðsett eru um land allt.  Árlega eru haldnir aðalfundir í félögunum og samþykktar ályktanir sem teknar eru fyrir á ársfundi LS.  Þar eru þær settar í nefndir sem ákveða hverjar skuli teknar til frekari umræðu, samþykktar eða synjunar þar sem allir kjörnir fulltrúar taka þátt.

Eins og eðlilegt er í öllum félögum, ekki síst okkar, er hart tekist á við afgreiðslu tillagna, hvað verður samþykkt og þar með fylgt eftir sem skoðun félagsins.

Það lýðræðislega ferli sem hér er lýst hefur skapað Landssambandi smábátaeigenda traust og virðingu sem ábyrgu félagi.  Stjórnmálamenn hafa getað treyst því að meirihluti félagsmanna standi á bakvið það sem forsvarsmenn þess kynna fyrir þeim.  Hvort þeir séu sammála því sem kemur frá LS er allt önnur saga.

Á þeim 35 árum sem LS hefur starfað, er teljandi á fingrum annarrar handar, að einstaka félagsmenn hafi ekki axlað félagslega ábyrgð.  Hlaupið undan merkjum eins og sagt er, tekið sérhagsmuni fram yfir heildarhagsmuni.  Einkenni slíkra frumhlaupa er að ómerktir finna hljómgrunn fyrir skoðunum sínum hjá einstökum alþingismönnum, jafnvel að ráðherra komi þar nærri.

Þannig búa þeir til nýja vígstöðu fyrir ráðherra þegar hann, í andstöðu við LS, glímir við að koma sínum málum gegnum ríkisstjórn og alþingi.  Getur svarað aðspurður um afstöðu LS:

Ja – ég veit nú ekki alveg um þeirra skoðun, þar sem ég hef í hendi áskorun frá stórum hluta þeirra um að víkja ekki frá því frumvarpi sem ég hef kynnt.

Með þessari aðferð hefur tekist að skapa óeiningu meðal félagsmanna, sundra samstöðu og ná sínu fram.

Hvað er formaðurinn að meina?

Á undanförnum dögum hafa nokkrir félagsmenn í LS ákveðið að fara þessa leið.  Hringt er í þá sem stunda grásleppuveiðar og þeir spurðir um afstöðu sína til kvótasetningar.  Séu þeir andvígir því að settur verði kvóti á hvern bát, er þeim sagt að fyrir liggi að grásleppuveiðar verði bannaðar vegna löggjafar frá Bandaríkjunum sem banni innflutning frá löndum sem stundi veiðar þar sem meðafli eru sjávarspendýr.  Þeir segja að forsenda fyrir bótum til þeirra sé að veiðarnar verði kvótasettar – aflamark á hvern bát.

Í 10. gr. laga um stjórn fiskveiða segir:  „[[Á hverju fiskveiðiári er ráðherra heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski skv. 5. mgr. 8. gr. sem hér segir]: 1) 
    1. Til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda.“

Nú hefur sjávarútvegsráðherra hins vegar ákveðið að breyta þessu.  Í frumvarpi hans um atvinnu- og byggðakvóta sem kynnt hefur verið í samráðsgátt er ákvæðið fellt brott.   Í stað þess kemur varasjóður sem gert er að bregðast við óvæntum áföllum í dreifðum sjávarbyggðum.

  1. sept. sl. sendi LS athugasemd í samráðsgátt við grásleppufrumvarpið:

„Á síðasta aðalfundi Landssambands smábátaeigenda sem haldinn var í október 2019 var samþykkt að LS væri mótfallið kvótasetningu á grásleppu.  Frá þeim tíma hefur umræða um málefnið haldið áfram og skoðanir skiptar eins og vera ber í lifandi félagsskap.  

Innan LS fara í hönd aðalfundir svæðisfélaga og aðalfundur sá 36. í röðinni hefur verið boðaður 15. október næstkomandi.  Gera má ráð fyrir umræðu um frumvarpið sem hér er til umsagnar sem gæti snúið við einstaka þáttum sem hér verða sagðir.  Verði svo gefst tækifæri til annarrar umsagnar verði frumvarpið lagt fram á Alþingi.“

Að lokum vil ég hvetja félagsmenn til að standa saman og fylgja þeirri stefnu sem LS hefur boðað í hverju máli.

Samstaðan er okkar sterkasta vopn.“

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Fizza

Samkvæmt könnun sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi létu gera vilja margir landsmenn borða meira af fiski. En svo virðist sem fó...

thumbnail
hover

Skrýtið að þjóna til altaris

Maður vikunnar nú er fæddur Gaflari en á báðar ættir að rekja norður. Hann býr á Eskifirði en vinnur á Seyðisfirði. Hann hefu...

thumbnail
hover

Vill allt að 50.000 tonna fiskeldi...

„Fiskeldið er nú þegar einn af burðarásum atvinnulífsins og svo verður í framtíðinni, það er engin spurning. Starfsemi fiskeld...