-->

Sérstakt þorskígildi til eins árs

Sérstakt þorskígildi hverrar fisktegundar skal nú ákveðið af ráðherra með reglugerð, eigi síðar en 15. júlí 2013. Þetta sérstaka þorskígildi er aðeins til eins árs og verður lagt til grundvallar við álagningu veiðigjaldsins. Það kemur í stað núgildandi þorskígildisstuðla, sem eru ekki taldir gefa rétta mynd af afkomu einstakra útgerða og útgerðarflokka. Fyrir vikið hafi veiðigjaldið lagst  af mismiklum þunga á útgerðirnar. Eftir breytinguna verða veiðigjöld á næsta fiskveiðiári 7,38 kr. á hvert sérstakt þorskígildiskíló í botnfiskveiðum og 38,25 kr. á hvert sérstakt þorskígildiskíló í uppsjávarveiðum. Almennt veiðigjald skal vera 9,5 kr. á hvert sérstakt þorskígildiskíló.

Taka skal mið af tólf mánaða tímabili frá 1. maí 2012 til 30. apríl 2013 í þeim útreikningi. „Sé tekin ákvörðun um stjórn veiða á tegund sem ekki hefur áður sætt slíkri ákvörðun skal þegar reikna þorskígildi fyrir tegundina miðað við sama tímabil. Sérstök þorskígildi skulu reiknuð sem hlutfall verðmætis einstakra tegunda sem sæta ákvörðun um stjórn veiða af verðmæti slægðs þorsks. Til grundvallar verðmætaútreikningi skal leggja heildaraflamagn og heildarverðmæti þessara tegunda, að frádregnu því magni og verðmæti sem unnið er um borð í fiskiskipi, samkvæmt upplýsingum Fiskistofu. Þegar fisktegund er að nær öllu leyti unnin um borð í fiskiskipi er heimilt að líta til sambærilegra tegunda til hliðsjónar við mat á sérstöku þorskígildi hennar. Þegar fiskur er seldur ferskur erlendis skal draga frá verði hans 85 kr. á hvert kíló vegna kostnaðar við útflutning. Varðandi botnfisk, að undanskildum karfa, skal miða við slægðan fisk. Miða skal við slitinn humar. Að öðru leyti fer um sérstök þorskígildi og sérstök þorskígildiskíló sem væru þorskígildi og þorskígildiskíló samkvæmt lögum þessum,“ segir í annarri grein laganna.
Í athugasemdum við frumvarpið segir svo: „Í 2. mgr. b-liðar, sem sett er fram með hliðsjón af 19. gr. laga um stjórn fiskveiða, er mælt fyrir um ákvörðun sérstakra þorskígildisstuðla fyrir komandi fiskveiðiár 2013/2014. Hinum sérstöku þorskígildisstuðlum er einungis ætlað að gilda til eins árs, en allar forsendur eru fyrir hendi til ákvörðunar þeirra. Sérstaka athygli má vekja á þeim takmarkatilvikum þegar fisktegund er að nær öllu leyti unnin um borð í fiskiskipi. Í málsgreininni er kveðið á um að þá sé heimilt að líta til sambærilegra tegunda til hliðsjónar. Hér má nefna tegund eins og úthafskarfa sem eingöngu er unninn um borð í fiskiskipum og ekki landað óunnum/ferskum. Við útreikning sérstaks þorskígildis fyrir hann er nærtækt að horfa til útreikninga fyrir gullkarfa. Í lok málsgreinarinnar er vísað til þess að um sérstök þorskígildi og þorskígildiskíló fari „að öðru leyti“ sem væru þorskígildi og þorskígildiskíló samkvæmt lögunum. Þar eru m.a. höfð í huga ákvæði 2. mgr. 9. laganna um svonefnt „frítekjumark“ sem reikna skal af fyrstu þorskígildiskílóum, þ.e. hér sérstökum þorskígildiskílóum, hvers gjaldskylds aðila.“