Sextíu bráðabirgðatillögur starfshópa um nýja sjávarútvegsstefnu

Deila:

Fjórir starfshópar sem Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, skipaði í verkefninu Auðlindin okkar, samráðsnefnd um sjávarútvegstefnu, í maí á síðasta ári hafa skilað 60 bráðabirgðatillögum. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins eru starfshóparnir hálfnaðir í sinni vinnu en sumar tillagnanna þurfi að útfæra enn frekar en aðrar séu settar fram til að skapa umræðu og kalla fram viðbrögð í samfélaginu, á Alþingi, hjá hagsmunaaðilum og sem víðast. „Sjávarútvegurinn kemur öllum við, enda undirstöðuatvinnugrein í íslensku efnahagslífi. Því er mikilvægt að umræðan verði opin og sjónarmiðin sem fjölbreyttust,“ segir í frétt ráðuneytisins og jafnframt að markmiðið með verkefninu Auðlindin okkar hafi frá byrjun verið að auka sátt um fiskveiiðstjórnunarkerfið þar sem gætt sé að umhverfissjónarmiðum, verðmæti hámörkuð og þeim dreift með sem sanngjörnustum hætti.

Mikilvægur ferill framundan
„Margar tillagnanna eru skýrar og til þess fallnar að efla samstöðu og skerpa sýn á málaflokkinn meðan aðrar munu kalla á sterk og ólík viðbrögð. Framundan er mikilvægur ferill í því skyni að byggja enn betur undir lokatillögur hópanna sem verður skilað í maí á þessu ári. Áhersla er lögð á að tillögurnar eru í vinnslu og að ekki er um endanlega  afurð að ræða
Tillögurnar taka á ólíkum þáttum greinarinnar; fiskveiðistjórnun, rannsóknum, vísindum, ráðstöfun aflamarks, menntun, umgengni, starfsskilyrðum og markaðssetningu.
Hingað til hefur verkefnið verið unnið samkvæmt áætlun og er gert ráð fyrir að lokaniðurstöður líti dagsins ljós í vor, lagafrumvörp verði tilbúin til kynningar í árslok og þau verði lögð fram fullbúin á vorþinginu 2024,“ segir í umfjöllun ráðuneytisins.
„Það hefur verið mín staðfasta trú að nýrrar nálgunar væri þörf gagnvart þeim áskorunum og tækifærum sem sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir og þar með íslenskt samfélag. Mikill metnaður hefur verið lagður í að vinnan sé þverfagleg og allt ferlið eins opið og verða má,“ segir Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra. „Ég tel þetta verkefni í senn tímabært og mikilvægt.“

Kvótakerfið áfram og auðlindgjöld hækki
Meðal veigamikilla tillagna af þeim 60 sem nú eru birtar er að aflamarkskerfinu verði viðhaldið, að skerpt verði og endurskoðuð markmið strandveiða, að breytingar verði gerðar á byggðakvótakerfinu og veiðiskylda verði hert.
Lagt er til að efla hafrannsóknir og forgangsraða auknu fjármagni til hafrannsókna sem ekki snúi að beinni ráðgjöf um nýtingu nytjastofna. Einnig er gerð tillag um að skilja á milli ráðgjafar og rannsókna Hafrannsóknastofnunar.
Tillag er gerð um að veiðisvæði verði eingöngu miðuð við tegund veiðarfæra, en ekki stærð eða afla skipa. Ennfremur að allur veiddur afli komi í land og að settir verði hvatar inn í kerfið til að tryggja að óskilegur afli komi að landi.
Í tillögum sem snúa að auðlindagjaldi er lagt til að það verði hækkað og útreikningur þess einfaldaður. Tekin verði upp fyrningarleið, auðlindasjóður og lögbundin dreifing til sveitarfélag. Þá verði aukið gagnsæi í eignarhaldi og rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og er einnig lagt til að úttekt verði gert á áhrifum eigna- og stjórnunartengsla innan sjávarútvegs og í óskyldum greinum.

Hér má sjá tillögurnar 60 og umfjöllun um þær.

 

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Eggert Benedikt Guðmundsson formaður starfshópsins Aðgengi á kynningarfundi vegna birtingar tillagna starfshópanna fjögurra.

 

Deila: