SFS leggur til að ráðgjöf Hafró verði fylgt

102
Deila:

Hafrannsóknastofnun birti í morgun ráðgjöf fyrir komandi fiskveiðiár 2021/2022. Stóru tíðindin felast í verulegum samdrætti í ráðlögðum þorskafla. Í samræmi við aflareglu er lagt til að hámarksafli þorsks á næsta fiskveiðiári verði alls 222.737 tonn, en á yfirstandandi fiskveiðiári er hann tæplega 257.000 tonn. Samdrátturinn á milli fiskveiðiára er því um 13%, en þess ber að geta að á yfirstandandi fiskveiðiári 2020/2021 var samdrátturinn 6% frá fyrra fiskveiðiári. Eðli máls samkvæmt eru tíðindin þungbær. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) mælast hins vegar til þess að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar verði fylgt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SFS og segir þar ennfremur:

„Mikill árangur hefur náðst á umliðnum 12 árum í uppbyggingu þorskstofnsins. Veiðar hafa verið stundaðar með sjálfbærum hætti og afli takmarkaður á forsendum varúðarleiðar og vísindalegrar ráðgjafar. Þrátt fyrir að tekist hafi að byggja upp sterkan viðmiðunarstofn, þá leiða stöku slakir árgangar til þess að sveiflur verða óhjákvæmilegar. Þá telur Hafrannsóknastofnun jafnframt að stærð stofnsins hafi verið ofmetin á umliðnum árum og við því verði að bregðast.

Öflugar og vandaðar hafrannsóknir eru grunnforsenda þess að unnt sé að skapa verðmæti úr fiskveiðiauðlind. SFS hafa um langa hríð lýst áhyggjum af stöðu hafrannsókna hér á landi. Breytt umhverfisskilyrði í hafi og auknar kröfur á mörkuðum hafa síst dregið úr þessum áhyggjum. Sú niðurstaða, sem kynnt var í dag, er staðfesting þess að slíkar áhyggjur eru réttmætar og brýnt er að bæta úr.

Fyrirtæki í sjávarútvegi munu þurfa að bregðast við fyrirvaralausum tekjusamdrætti og ákvarðanir sem taka þarf verða ekki léttvægar. Ljóst má vera að frestun á nauðsynlegum aðgerðum, til að tryggja sjálfbærni, væri skammgóður vermir og skaðlegur. Vandanum yrði þá ýtt inn í framtíð og hætt er við að hann færi fljótt vaxandi. Í stuðningi atvinnugreinarinnar við hina vísindalegu ráðgjöf felst því mikilvæg áhersla á langtímahagsmuni.“ 

Deila: