-->

Sífellt styttri matreiðslutími ógnar fisksölu í Bretlandi

Viðtal við Simon Smith framkvæmdastjóra Iceland Seachill

Helsta tækifærið til að auka fiskneyslu í Bretlandi er að fá fólk til að kaupa fisk oftar. Mest selda einstaka fiskafurðin í Bretlandi í dag er beinlaus frosin laxaflök sem Iceland Seachill framleiðir fyrir Tesco verslunarkeðjuna. Þessa vöru kaupa 6% heimila í Bretlandi að jafnaði þrisvar á ári. Til samanburðar er mest selda kjötafurðin þar í landi 500 gramma kjöthakkpakki framleiddur fyrir Sainsbury. Helmingi fleiri heimili kaupa þá vöru en laxaflökin frá Tesco. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi sem Simon Smith framkvæmdastjóri Icelandic Seachill í Grimsby í Bretlandi hélt á Sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin var í Reykjavík nú í nóvember. Simon telur að í þessum tölum felist ákveðin tækifæri því það skipti augljóslega miklu máli takist mönnum að fjölga þeim skiptum sem fólk kaupir fisk.

Matreiðslutíminn styttist um helming á 25 árum

Icelandic Seachill er leiðandi fyrirtæki í Bretlandi í sölu á sjávarafurðum tilbúnum til eldunar og til neyslu. Fyrirtækið markaðssetur tilbúna rétti undir vörumerkinu The Saucy Fish Co. og meðal stærstu viðskiptavina þess má nefna verslunarkeðjurnar Tesco, Marks & Spencer, Sainsbury´s og Ocado. Simon segir það ákveðna áskorun að tíminn sem almenningur eyðir í  matreiðslu er alltaf að styttast. Árið 1980 vörðu breskar fjölskyldur að jafnaði 60 mínútum í að útbúa kvöldverð. Árið 1990 hafði þessi tími styst í 45 mínútur og í 32 mínútur árið 2014. „Þetta skiptir máli fyrir okkur vegna þess að talsvert af þeirri vöru sem við seljum er á mörkum þessara 30 mínútna í matreiðslu. Spaghetti boulognese sem í langan tíma hefur verið efst á vinsældalistanum í Bretlandi hefur færst neðar á listann ásamt karrýréttum og kínamat vegna þess að það tekur að jafnaði 30-32 mínútur að útbúa þessa rétti. Að meðaltali tekur um 33 mínútur að matreiða rétt úr kældum fiski. Haldi þessi þróun áfram þannig að þessi tími fari niður í 20 mínútur getur það haft áhrif á eftirspurn eftir fiski. Takist okkur ekki að koma með lausnir sem stytta matreiðslutíma fisksins, er hætt á að hann detta út af innkaupalistum fólks,“ segir Simon.

Helmingur markaðarins er lax og rækjur

Fiskmarkaðinn í Bretlandi veltir að sögn Simons 4 milljörðum evra en þar af eru 3,2 milljarðar kældur og frosinn fiskur. Icelandic Seachill er með 4 verksmiðjur sem framleiða fiskrétti í Grimsby og hjá þeim vinna 1200 manns. Hann segir að meginverkefni þeirra sé að fá fleiri til að borða fisk og því eyðir Icelandic Seachill miklum fjármunum í auglýsingar, markaðsrannsóknir og þróunarstarf.  Að sögn Simons er kældur og frosinn fiskur um 2/3 af allri fiskneyslu í Bretlandi og þar af standa lax og rækjur fyrir um 50% af markaðinum. Ef þorski og ýsu er bætt við standa þessar fjórar tegundir undir 70% af fiskneyslunni í Bretlandi.

„Til að fá nýja neytendur til að velja fisk völdum við þá leið að byggja upp nýtt vörumerki The Saucy Fish Co.“

Simon segir að miklir fjármunir hafi verið lagðir í markaðsrannsóknir þar á meðal á væntingum neytenda og kaupmanna. Markaðssetning fer nú í vaxandi mæli fram í samfélagsmiðlum og öðrum stafrænum miðlum en einnig með sjónvarpsauglýsingum og almannatengslum. Í síðustu auglýsingaherferð fyrirtækisins var fólk hvatt til að neyta fisks oftar og reglulegar. Hún mæltist vel fyrir að sögn Simons og hafði þau áhrif að nýjum kaupendum hefur fjölgað um 50% og þar af er um 25% sem höfðu aldrei keypt fisk áður í viðkomandi verslun.

Hræddir við fisk!

„Í rannsóknum okkur höfum við komist að því að neytendur eru sumir hræddir við fisk. Þeim finnst hann lykta illa, segja að það séu bein í honum, finnst hann slímugur og vita ekki hvernig á að matreiða hann,“ segir Simon.

The Saucy Fish merkið var sett á markað árið 2010 og fékk strax mjög góðar viðtökur en vörulína þess er sniðin að þörfum þriggja ólíkra neytendahópa sem fyrirtækið hefur skilgreint. Í fyrsta lagi er það gott hráefni fyrir þá sem eru sólgnir í fisk og óhræddir að matreiða hann. Í öðru lagi eru það fiskréttir sem þarf aðeins að taka úr umbúðunum og setja í ofn og eru sniðnirað þörfum þeirra sem vilja borða fisk en óttast að eyðileggja hráefnið. Loks eru það einfaldir tilbúnir réttir fyrir þá sem hræðast fisk.

 

 

Comments are closed.