Sighvatur kveður

Deila:

Ríflega hálfrar aldar gamalt fiskiskip er nú að ljúka afar farsælum ferli sínum. Sighvatur GK 357 kom í gær úr sinni síðustu veiðiferð. Næsta ferð hans verður til Belgíu í brotajárn. Sighvatur hefur verið í eigu Vísis hf. í Grindavík í 36 ár, eða frá árinu 1982. Lauslega áætlað hefur hann borið að landi um 100.000 tonn af bolfiski á þeim tíma.

Skipið var smíðað í Boizenburg í Austur-Þýskalandi árið 1965 fyrir Síldarvinnsluna í Neskaupstað og hét þá Bjartur NK. 1972 var það selt til Fiskaness í Grindavík og bar þá nafnið Grímseyingur. 1976 keypti félagsútgerð Reynis Jóhannssonar og Benónýs Þórhallssonar skipið og fékk það þá nafnið Víkurberg. 1979 var skipið selt Þormóði ramma hf. í Siglufirði. 1980 var það skráð eign ríkissjóðs Íslands, bar nafnið Bjartur og var skráð sem rannsóknaskip. Vísir hf, kaupir loks skipið í febrúar 1982.

Miklar breytingar hafa verið gerðar á skipinu frá upphafi. Meðal annars var skipt um vél í því og það yfirbyggt. Á skipinu voru stundaðar ýmsar veiðar svo sem veiðar á síld og loðnu, þorsknetaveiðar og loks hins síðari ár línuveiðar með beitningarvél um borð. Skipaskrárnúmer skipsins er 975.

Mikið breytt skip undir sama nafni, Sighvatur GK 57 tekur upp þráðinn þar sem sá gamli skilur hann eftir og heldur líklega á veiðar í næstu viku.

Sá nýi er tveimur númerum stærri en sá gamli.

Sá nýi er tveimur númerum stærri en sá gamli.

Ljósmyndir Hjörtur Gíslason.

Deila: