Siginn fiskur og hamsar í uppáhaldi

Deila:

Maður vikunnar byrjaði 14 ára sem hálfdrættingur á Guðsteini. Hann var síðast á Höfrungi III RE. Áhugamálin eru golf, fjölskyldan og líkamsrækt. Hann færi til Ítalíu í draumafríið.

Nafn:

Þorvaldur Svavarsson.

Hvaðan ertu?

Ég er Gaflari, fæddist í Sólvangi í Hafnarfirði.

Fjölskylduhagir?

Ég bý í Hafnarfirði og er giftur henni Sigrúnu Erlu Gísladóttur. Saman eigum við 4 börn, þrjár stelpur og einn strák á aldrinum 22-36 ára.

Hvar starfar þú núna?

 Er á milli vita, starfaði síðast á Höfrungi 111.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

14 ára árið 1975 sem hálfdrættingur á Guðsteini GK 140. 

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Mikil spenna og fjölbreytileiki. Verður að vera alltaf á tánum.

En það erfiðasta?

Reiðileysi og brælur.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Þegar við vorum að veiða grálúðu á austur Grænlandi, þá syntu hvalirnir með skipinu mjög nálægt okkur, kannski 6-8 stykki. Um leið og byrjað var að hífa þá stungu þeir sér allir á kaf og biðu eftir að trollið kæmi upp fyrir aftan okkur. Þeir syntu alveg upp við pokann til þess að athuga hvort þeir fengu eina og eina lúðu. Þetta gerðist hvað eftir annað.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Árni Valur Árnason, var bátsmaður með mér á sömu skipum í 25 ár. Hann er mjög góður drengur og er víkingur til verka.

Hver eru áhugamál þín?

Golf og fjölskylda. Ferðalög til Ítalíu eru einnig í miklu uppáhaldi. Einnig stunda ég líkamsrækt og hef gaman af.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Siginn fiskur og hamsar.


Hvert færir þú í draumfríið?

Til Ítalíu, skiptir ekki máli hvar, það er allt æðislegt þar.

Deila: