Síldin heldur sig á sama stað

92
Deila:

Vinnsla á síld gengur vel í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Lokið var við að landa 1.100 tonnum úr Beiti NK í gær og í morgun kom Börkur NK með 1.300 tonn. Þegar vinnslu á síldinni úr Beiti lauk í gær var hafist handa við að þrífa fiskiðjuverið hátt og lágt eins og gera þarf reglulega. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóra á Berki, í morgun og spurði fyrst hvort síldin héldi sig alltaf á svipuðum slóðum. „Já, hún gerir það. Veiðin hefur farið fram út af Héraðsflóanum og þar heldur hún sig. Það er engin breyting á því. Aflann í þessari veiðiferð fengum við í fimm holum. Það fiskaðist vel en við þurftum að gera hlé á veiðunum í eina 20 tíma vegna brælu. Nú er Börkur búinn að veiða rúm 6.000 tonn á vertíðinni og það hefur verið afar þægilegt að ná í þetta. Það er stutt að fara og yfirleitt nóg af síld,“ segir Hálfdan.
Ljósm. Stefán P. Hauksson

Deila: