Sindri VE breyttist í frystitogarann Campelo 2

177
Deila:

Togarinn Sindri VE-60, upprunalega Páll Pálsson ÍS-102, er kominn til veiða við Afríkustrendur sem frystitogarinn Campelo 2. Hann er gerður út frá Sengal.

Fyrirtæki á Spáni keypti Sindra af Vinnslustöðinni snemma árs 2019 og togarinn var afhentur nýjum eigendum í bænum Marin í Galisíu á norðvestanverðum Spáni.

Eigi vitum við svo gjörla um hvort skipið hefur skipt aftur um eigendur en víst er að Sindri umbreyttist í frystitogara í skipasmíðastöð í Marín og er nú í rekstri á nýju tilverustigi.

Campelo 2 á sér merka útgerðarsögu á Íslandi og þess vegna er við hæfi að fylgjast með honum áfram! Páll Pálsson var einn tíu togara sem Íslendingar létu smíða fyrir sig í Japan og kom til Íslands gosárið 1973 í fylgd með Vestmannaey VE.

Vinnslustöðin keypti Pál Pálsson af HG Í Hnífsdal, tók við skipinu sumarið 2017 og nefndi Sindra VE. Togaranum var ætlað að brúa bil í starfsemi VSV vegna tafa við að fá Breka VE afhentan í Kína.

Skipsheitið Sindri á sér langa sögu í Vestmannaeyjum. Fiskiðjan gerði út bát með þessu nafni forðum daga og frá 1977 átti Fiskimjölsverksmiðjan og síðar Vinnslustöðin togara sem Sindri hét og gerði út fram á tíunda áratug síðustu aldar.

 

Deila: