Sjávarhiti yfir meðallagi

Deila:

Sjávarhiti í hlýsjónum sunnan og vestan við landið hefur hækkað, var í maí/júní um og yfir meðallagi hita síðustu fimm áratugi, en hann hefur verið undir meðallagi síðustu fjögur ár. Selta sjávar á þessum slóðum er enn töluvert undir meðallagi líkt og verið hefur síðustu fjögur árin. Selta er þó á uppleið miðað við  2017 þegar efri lög sjávar voru hvað ferskust samkvæmt frétt frá Hafró

Lækkun hita og seltu í hlýsjónum tengjast sviptingum sem verið hafa á vindafari við Labrador og í sunnanverðu Grænlandshafi undanfarin ár. Fyrir norðan land voru hiti og selta yfir meðallagi. Hlýsjávar gætti austur fyrir Langanes og var hiti á landgrunni norðaustur af Langanesi með því hæsta sem mælst hefur að vori undanfarna áratugi og jafnast við sjávarhiti við hlýju árin 2003 og 2004. Almennt var útbreiðsla hlýsjávar mikil fyrir Norðurlandi og austur með því. Hiti og selta voru yfir meðallagi í Austur-Íslandsstraumi. Hiti og selta fyrir austan land voru um og yfir meðallagi.

Næringarefni og plöntusvif

Vorblómi svifþörunga var að mestu yfirstaðinn í innanverðum Faxaflóa, en gróður almennt rýr vestan lands og norður af Vestfjörðum og styrkur næringarefna hár ef undan eru skildar grynnstu stöðvarnar og inni á Breiðafirði, Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi. Frá Hornbanka og austur fyrir Siglunessnið var gróðurflekkur, en næringarefni ekki uppurin. Austur af Siglunessniði og austur um land að Krossanesi var vorblóminn yfirstaðinn og orðið næringarsnautt. Einnig var gróðurflekkur á Selvogsbanka, en annars hafði vorblóminn ekki átt sér stað að svo komnu.

Dýrasvif

Þegar á heildina er litið var átumagn í yfirborðslögum við landið í vorleiðangri 2019 nálægt langtímameðaltali. Á Vestur – og Austurmiðum var átumagn undir meðallagi, en um eða yfir meðallagi á Norður- og Suðurmiðum. Séu niðurstöður um átu bornar saman við vorið 2018 kemur í ljós að átumagnið var talsvert meira en þá fyrir sunnan og norðan land. Rauðáta var áberandi í flestum sýnum, einkum fyrir sunnan og vestan, þar sem mikið var af rauðátu á ungstigum, sem bendir til mikils vaxtar á þeim slóðum. Þá voru smáátutegundir algengar í sýnum sem tekin voru á grunnslóð fyrir sunnan land. Í kalda sjónum djúpt norðaustur af landinu var mikið um pólátu.

 

Deila: