Sjávarútvegsskólinn blómstrar

Deila:

Árið 2013 stofnaði Síldarvinnslan Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar og hófst kennsla þá um sumarið. Skólinn var ætlaður nemendum sem höfðu nýlokið 8. bekk og var hann starfræktur í samvinnu við Vinnuskóla Fjarðabyggðar. Skólahaldið gekk vel í alla staði og fljótlega vildu fleiri sjávarútvegsfyrirtæki og sveitarfélög bjóða upp á slíka fræðslu. Í samræmi við útbreiðslu starfseminnar breyttist nafnið á skólanum; þegar árið 2014 bar skólinn nafnið Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar og árið eftir hét hann Sjávarútvegsskóli Austurlands. Árið 2016 hóf síðan Háskólinn á Akureyri að annast skólahaldið og þá teygði Sjávarútvegsskólinn einnig anga sína til Norðurlands. Þá hefur Sjávarútvegsskóli Ísafjarðarbæjar einnig verið starfræktur að austfirskri fyrirmynd.

Nú er skólahaldi Sjávarútvegsskólans á þessu sumri að ljúka og í tilefni af því ræddi heimasíðan stuttlega við leiðbeinendurna en þeir eru Arnfríður Eide Hafþórsdóttir sjávarútvegsfræðingur og María Marta Bjarkadóttir nemi í sjávarútvegsfræðum. Þær Arnfríður og María Marta eru að sinna kennslu í Sjávarútvegsskólanum í fyrsta sinn og hafa þær annast hana á Austfjörðum. Þær hafa kennt á Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Vopnafirði, Seyðisfirði og í Neskaupstað. Nokkuð hefur verið um að nemendur hafa sótt skólann úr sveitarfélögum sem ekki hefur verið kennt í, til dæmis komu nemendur af Héraði til Seyðisfjarðar.

Arnfríður og María Marta á góðri stund.

Þær Arnfríður og María Marta segja í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að samtals hafi um 70 nemendur sótt Sjávarútvegsskólann á Austurlandi á þessu sumri. Kennslan hafi gengið vel og krakkarnir verið bæði skemmtilegir og áhugasamir. Kennt er í fjóra daga á hverjum stað og alls staðar gegna sjávarútvegsfyrirtækin lykilhlutverki. Fyrir utan fyrirlestra eru vinnustaðir heimsóttir og fjallað um störf sem tengjast sjávarútvegi bæði beint og óbeint. Í ár var einnig lögð áhersla á að heimsækja björgunarsveitir og fræðast um sjóbjörgun og reyndist það vera þáttur sem krökkunum þótti afar áhugaverður. Þegar farið var yfir sjávarútveginn var öllum þáttum sinnt; veiðarfæragerð, veiðum, vinnslu og markaðsmálum. Í mörgum tilvikum kom það nemendunum mjög á óvart hve störfin innan greinarinnar eru fjölbreytt og margbreytileg.

Þær Arnfríður og María Marta segja að samskiptin við alla þá sem hafa tengst skólahaldinu hafi verið einkar ánægjuleg og það hafi verið hin besta skemmtun að fá að starfa með unga fólkinu á Austurlandi. „Það eru forréttindi að fá að vera með þessum krökkum,“ sögðu þær.

 

Deila: