-->

Sjávarútvegurinn er svo ótrúlega áhugaverður

Maður vikunnar að þessu sinni er frá Ögri Við Ísafjarðardjúp. Hann byrjaði 16 ára að vinna í fiski hjá Þorbirni hf. í Grindavík, en er nú forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins.

Nafn: Halldór Halldórsson

Hvaðan ertu?

Frá Ögri við Ísafjarðardjúp.

Fjölskylduhagir?

Giftur Sigríði Hjálmarsdóttur framkvæmdastjóra Hallgrímskirkju og eigum við til samans 6 börn og 4 barnabörn, það fimmta er á leiðinni.

Hvar starfar þú núna?

Forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. sem er með verksmiðju á Bíldudal og er að undirbúa byggingu verksmiðju einnig í Súðavík.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Það var haustið 1980 þegar ég 16 ára gamall fékk vinnu hjá Þorbirni hf. í Grindavík.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Sjávarútvegurinn er svo ótrúlega áhugaverður. Mér fannst rosalega gaman að vinna á síldarvertíð en það voru eiginlega öll störfin sem ég tók þátt í frekar skemmtileg. Sjómennskan höfðaði líka til mín en ég var tvær vertíðir á netum og prófaði svo fleira í lausaróðrum.

Svo er kalkþörungabransinn mjög áhugaverður angi sjávarútvegs í þeim skilningi að við fáum hráefnið úr sjónum.

En það erfiðasta?

Það voru og eru alltaf starfsmannamálin. Langar vaktir gátu verið erfiðar bæði á sjó og landi en yfirleitt skemmtilegar.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það er ekki allt prenthæft. En ég man eftir einum vinnufélaga sem fékk leyfi hjá okkur til að geyma bílinn sinn upp á steyptu lofti sem hægt var að keyra inn á eftir sérstökum rampi sem var færanlegur. Svo var bíllinn þarna í einhvern tíma og líklega steingleymdi vinnufélaginn þessari fínu bílgeymslu og tilkynnti til lögreglu að bílnum hefði verið stolið.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Ég hef unnið með mörgu stórkostlegu fólki. Gunnar og Eiríkur hjá Þorbirni hf. Og svo var minn trausti vinnufélagi í 12 ár hún Birna Lárusdóttir þó það hafi ekki verið í sjávarútvegi.


Hver eru áhugamál þín?

Sjókajak (kemur kannski ekki á óvart) og almenn útivera. Við eigum jörðina Ögur í Ísafjarðardjúpi og þar vil ég vera eins mikið og hægt er.


Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Ýmsir saltfiskréttir eru með því besta. Maturinn á Tjöruhúsinu á Ísafirði og Vegamótum á Bíldudal. Svo er það íslenska lambið.


Hvert færir þú í draumfríið?

Grikkland er á áætlun okkar hjóna. Við eigum eftir að fara í brúðkaupsferðalagið.

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Brottkast – viðvarandi verkefni

„Á líðandi ári varð veruleg fjölgun mála hjá Fiskistofu er varða brottkast og rekja má fjölgunina til þess að eftirlit var b...

thumbnail
hover

Lítið um hrygningu loðnu fyrir Norðurlandi...

Ætla má að lítið magn að loðnu hafi hrygnt á grunnslóð fyrir Norðurlandi í sumar. Vísbendingar eru um að meira af loðnu hafi ...

thumbnail
hover

Ísleifur VE dró Kap VE til...

Aðalvélin í Kap VE bilaði þegar skipið var á loðnumiðum fyrir norðaustan landið á mánudag. Annað skip frá Vinnslustöðinni, ...