Sjómannadagsblað Grindavíkur komið út

146
Deila:

Myndarlegt Sjómannadagsblað Grindavíkur er komið út. Blaðið er 120 síður að stærð og prýða það fjölmargar ljósmyndir, bæði nýlegar og eldri. Meðal ljósmyndara má nefna Eyjólf Vilbergsson og Jón Steinar Sæmundsson. Ritstjóri blaðsins er Óskar Sævarsson.

Formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, Einar Hannes Harðarson, ritar pistil í blaðið þar sem hann fer yfir stöðuna í  kjaraviðræðum sjómanna og útvegsmanna og segist finna lítinn samningsvilja hjá útvegsmönnum. Hann ritar svo: Gjáin milli sjómanna og útgerðarmann hefur stækkað. Við sjómenn höfum staðið okkur einstaklega vel í baráttunni við covid veiruna og störfum vel með útgerðarmönnum í þeirri baráttu. Við höldum íslenska fiskiskipaflotanum að veiðum, fiskvinnslan stoppar ekki einn einasta dag. Tel okkur eiga inni greiða.“

Í blaðinu er rætt við Gunnar Má Gunnarsson umboðsmann Sjóvár í Grindavík. Séra Elínborg Gísladóttir ritar hugvekju, fjallað er um togbátinn Sturlu GK og togarann Gnúp í Grindavík GK og rætt við Sigurð Óla Þorleifsson, forstjóra Mustad í Grindavík. Þá er fjallað um Slysavarnardeildina Þorbjörn, sem fagnar nú 90 ára afmæli. Hafnarstjórinn Sigurður A. Kristmundsson ritar vertíðarspjall og fjallað er um sögu Vörubílastöðvar Grindavíkur. Steinar J. Lúðvíksson ritar um strand breska togarans Analby skammt frá Grindavík og Eðvarð T. Jónsson ritar grein um hetju- og hörmungarsögu verstöðvanna suður með sjó.

Deila: