Sjóminjavarslan hefur setið of lengi á hakanum

„Söfnin í landinu eiga með sér margvíslegt samstarf og til að treysta böndin stofnuðu þau með sér Samband íslenskra sjóminjasafna, SÍS, haustið 2006. Megin verkefni sambandsins nú er annars vegar að koma á svokölluðu varðveislumati fyrir skip og báta og hins vegar er unnið að heildstæðri skráningu allra skipa og báta í landinu fram til ársins 1950. Það er ærið verkefni og skemmtilegt.“ Þetta segir Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafns Íslands á Siglufirði og ritari Sambands íslenskra sjóminjasafna í samtali við Sóknarfæri. Hún segir sambandið, sem auðvitað ber skammstöfunina SÍS, fyrst og fremst vera samstarfsvettvang fyrir þau söfn í landinu sem varðveita og hlúa að sjóminjum. Söfnin varðveiti ekki bara skip og báta, heldur jafnframt veiðarfæri, fatnað, verkfæri og annað sem tengist málaflokknum. Þar að auki varðveita söfnin frásagnir, ritaðar heimildir, handverk og verkþekkingu er snýr að sjómennsku og skipasmíði.

„Að stofnun sambandsins stóðu á sínum tíma Byggðasafnið Görðum á Akranesi, Byggðasafnið á Hnjóti, Byggðasafn Vestfjarða, Síldarminjasafn Íslands, Sjóminjasafnið á Húsavík, Sjóminjasafn Austurlands, Sjóminjasafnið á Eyrarbakka, Byggðasafn Garðskaga og Víkin-Sjóminjasafnið í Reykjavík. Tilgangur félagsins er að efla og skipuleggja varðveislu sjóminja á Íslandi, skapa umræðuvettvang um málefni sjóminja, koma á samstarfi um skráningu, efla rannsóknir og efna til samsýninga og sameiginlegrar kynningar á sjóminjum Íslands. Þá hefur félagið jafnframt barist fyrir stofnun bátafriðunarsjóðs.“

Anita Elefsen safnstjóri: „Söfnin í landinu hafa að mínu mati staðið sig vel í varðveislu sjóminja – sem og einstaklingar og félagasamtök víða um land. Það sem helst háir þeim sem sinna málaflokknum er skortur á fjármagni og mannafla.“

Varðveislumat og bátaskráning

„Varðveislumatið er í senn bæði leiðarvísir og verkfæri fyrir alla þá sem koma að varðveislu eldri báta, t.d. SÍS, sjóminjasöfnin í landinu og aðrar stofnanir sem vinna að minjavernd. Þá mun leiðarvísirinn koma að góðum notum fyrir hugsanlegan hóp sérfræðinga sem hefði varðveislumat á sinni könnu, bátaverndarnefnd eða viðlíka, ef hún verður einhvern tímann stofnuð. Tilgangur varðveislumatsins er fyrst og fremst að stuðla að bættri bátavernd og gera alla vinnu markvissari við ákvarðatöku um hvað æskilegt sé að varðveita fyrir framtíðina og hvað ekki sem og að tryggja að ákvörðun um að taka bát til varðveislu sé byggð á faglegum grunni og þekkingu á menningarsögulegu gildi hans, bæði staðbundið og á landsvísu.“

Skráning allra skipa og báta í eigu safna og setra á Íslandi sem og sjófæra báta, eldri en 1950, á skipaskrá Samgöngustofu er viðamikið verkefni sem SÍS lauk nýverið við. Skráin nær yfir 190 skip og báta og telur nær 1.000 blaðsíður. „Tilgangur bátaskráningarinnar er að safna upplýsingum um fornbáta landsins og gefa yfirlit yfir stöðu bátaverndar í landinu. Skráin mun vonandi stuðla að bættri bátavernd og auðvelda alla vinnu við ákvarðatöku um hvað æskilegt sé að varðveita og hvað ekki. Ennfremur er skránni ætlað er að gera bátaarfinn sýnilegan umfram það sem nú er í þeirri von að auka skilning stjórnvalda og almennings á gildi hans. Skráin mun jafnframt stórbæta aðgengi almennings að þessum hluta menningararfsins og auðvelda frekari rannsóknarvinnu. Bæði bátaskráin og varðveislumatið eru aðgengileg á vefnum batasmidi.is/files.“

Skortur á fé og mannafla

Við spyrjum Anitu hvort Íslendingar hafi í gegnum tíðina verið nægjanlega hirðusöm að varðveita minjar tengdum sjávarútvegi á síðustu árum, m.a. í kjölfar mikillar tæknivæðingar og hvort söfnin í landinu eigi t.d. síðutogara eða heillegt frystihús frá síðustu öld?

„Söfnin í landinu hafa að mínu mati staðið sig vel í varðveislu sjóminja – sem og einstaklingar og félagasamtök víða um land. Það sem helst háir þeim sem sinna málaflokknum er skortur á fjármagni og mannafla. Flest söfn í landinu hafa fáa starfsmenn og samkeppni um styrktarfé er mikil. Nauðsynlegt hefur reynst að forgangsraða verkefnum og víða skortir geymslu- og sýningarpláss. Ákvörðun um að taka skip, bát eða jafnvel frystihús til varðveislu fylgir mikil ábyrgð og mikilvægt er að viðkomandi safn sjái sér fært að tryggja að ástand viðkomandi grips versni ekki. Bátar eru stærri og plássfrekari en flestir aðrir safngripir og því oft bæði dýrt og krefjandi að varðveita þá og viðhalda. Af þeim sökum hafa eigendur ekki alltaf haft fjárhagslegt bolmagn til að varðveita þá við viðunandi aðstæður eða með viðunandi hætti. Jafnframt hefur skort skilning á sögulegu gildi þeirra og hvernig skuli tryggja varðveislu þeirra. Í því ljósi má merkilegt telja hve margt hefur verið vel gert þegar allt kemur til alls.

Söfn landsins varðveita nærri 200 skip og báta – þó engan síðutogara. Síldarminjasafnið hér á Siglufirði á og varðveitir hins vegar lítið síldarfrystihús frá árinu 1930, en ég veit ekki til þess að stærri frystihús séu varðveitt í heild sinni.“

Framlögin stórlega rýrnað

Anita segir að árið 2000 hafi verið lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins nr. 92/1994. Breytingartillagan fólst í því að sjóðnum yrði gert skylt að „veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa.“ Sama ár var samþykkt þingsályktun um varðveislu báta og skipa þar sem ríkisstjórninni var falið að undirbúa tillögur um varðveislu skipa og báta, skilgreina varðveislugildi þeirra og móta reglur um fjármögnun.

„Skemmst er frá að segja að nú, tuttugu árum síðar, er málið enn óhreyft og tillögur ríkisstjórnarinnar hafa ekki litið dagsins ljós. Það er því sannarlega þörf á úrbótum af hálfu hins opinbera. Samkvæmt opinberum gögnum hafa styrkir til bátaverndar numið alls um 200 milljónum króna síðustu tvo áratugina – til samanburðar má nefna að úthlutanir húsafriðunarsjóðs nema um 300 milljónum króna á ári hverju. Á árunum 2000-2012 var að meðaltali veitt 14,4 mkr. til málaflokksins árlega, en á árunum 2013-2019 var sú upphæð að jafnaði 3,1 mkr. á ári. Framlög til bátaverndar hafa því rýrnað um 78% á undanförnum tuttugu árum.“

„Mín tilfinning er sú að áhugi almennings á sjóminjum sé nokkuð mikill. Ég hygg að fáum blandast hugur um hve mikilvægir bátar og skip hafi verið Íslendingum í gegnum aldirnar, bæði sem samgöngutæki og atvinnutæki til útgerðar og fiskveiða. Þrátt fyrir sögulegt mikilvægi sitt hafa skip og bátar hins vegar verið hornreka þegar kemur að opinberum styrkjum og á sama tíma verið minjavörslunni krefjandi viðfangsefni. Hvað hið opinbera varðar þá hefur sjóminjavarslan setið á hakanum of lengi. Söfn, setur, sýningar, áhugamannafélög og einstaklingar hafa sinnt varðveislu báta og skipa af miklum myndarbrag þrátt fyrir lítinn fjárstuðning hins opinbera. Hættan er sú, við óbreytt ástand, að umhverfið verði of letjandi og vegurinn virðist óvinnandi, með þeim afleiðingum að menn og konur missi þrek og bátarnir okkar hverfi einn af öðrum. Um leið glötum við þeirri verðmætu þekkingu sem báta- og skipasmiðir búa yfir – og viðhalda með viðgerðum og endursmíði.“

Síldin – örlagavaldurinn á 20. öld

Eins og áður sagði er Anita safnstjóri Síldarminjasafns Íslands á Siglufirði en það er meðal stærstu safna á landinu. Síldarminjasafnið hefur hlotið margs konar verðlaun og viðurkenningar, m.a. Íslensku safnaverðlaunin árið 2000 og Evrópuverðlaun safna árið 2004 sem besta nýja iðnaðarsafn Evrópu. Þá hlaut safnið Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2017. Í þremur ólíkum safnhúsum fá gestir innsýn í hið stórbrotna og heillandi síldarævintýri og kynnast síldveiðum og vinnslu á silfri hafsins – síldinni sem var einn helsti örlagavaldur Íslands á tuttugustu öld. Síldariðnaðurinn var svo mikilvægur, að talað var um ævintýri, þegar þjóðin hvarf frá aldalangri fátækt og byggði upp nútíma samfélag.

„Síðastliðinn aldarfjórðung hefur uppbygging safnsins og sýninga þess verið forgangsverkefni – og árangurinn hefur ekki látið á sér kræla. Safnið hefur eflst mjög faglega en einnig dregið að sér ferðamenn og fróðleiksfúsa í auknum mæli frá ári til árs. Til viðbótar við gestamóttöku og miðlun sögunnar sinnir starfsfólk safnsins faglegu safnastarfi, rannsóknum og skráningu af metnaði, árið um kring. Safnkennsla er jafnframt mikilvægur þáttur í starfsemi safnsins og hafa heimsóknir nemenda af öllum skólastigum, allt frá leikskóla í háskóla, aukist mikið undanfarin ár. Vinna við safnkostinn er ærin, en hann telur í það minnsta tíu þúsund gripi, auk þess sem 200.000 ljósmyndir eru varðveittar í ljósmyndasafni Síldarminjasafnsins,“ segir Anita.

Við spyrjum hana um þau nýju verkefni sem eru á döfinni hjá safninu. Veturinn í síldarbænum „Stóra verkefnið um þessar mundir er uppbygging Salthússins, nýs varðveisluhúss. Um er að ræða sögulegt hús, sem hefur verið endurbyggt með það að markmiði að koma safnkostinum til framtíðarvarðveislu við góðar aðstæður. Í húsinu verða þrjú ólík rými: varðveislurými á efri hæð fyrir málverk, textíl, húsgögn, húsbúnað og aðra smærri gripi og varðveislurými á neðri hæð fyrir veiðarfæri, tækja- og vélbúnað, verkfæri og aðra grófa gripi. Í Salthúsinu verður jafnframt aðstaða til skráningar, forvörslu, ljósmyndunar gripa og annarrar vinnu í tengslum við framtíðarvarðveislu safnkosts og rannsóknir. Þessu til viðbótar verður í húsinu ný grunnsýning Síldarminjasafnsins sett á laggirnar sem nefnist Veturinn í síldarbænum. Þar verður m.a. skólastarfi, togaraútgerð, verkalýðshreyfingu, annarri félagastarfsemi og skíðaiðkun gerð skil og verður flóra sýninga safnsins enn viðameiri í kjölfarið. Jafnframt verður í húsinu opið rými fyrir gesti þar sem verður að finna vandaða safnverslun, kaffiaðstöðu og fyrirlestrarsal.

Sýningin Veturinn í síldarbænum verður staðsett á efri hæð Salthússins, í um 120 m² rými og öllum opin á opnunartíma safnsins. Stjórnendur safnsins leggja allan metnað í að fullfjármagna verkefnið og ljúka framkvæmdum við Salthúsið eins fljótt og kostur er og búa þar með enn betur að vönduðu safni, sem varðveitir, stundar rannsóknir, miðlar og fræðir.“

Um 27.000 gestir á ári

Anita segir að metnaðarfull sýningastarfsemi hafi alla tíð blómstrað á Síldarminjasafninu þar sem mikilvægum þætti úr sögu þjóðarinnar allrar hafi verið teflt fram af reisn. Með því að byggja á menningararfinum hafi tekist að skapa nýja vídd í menningarlífi Siglfirðinga og hafa þannig áhrif á þróun og aðdráttarafl bæjarins. „Hugrekki hóps áhugamanna, sem á undanförnum áratugum hefur hægt og bítandi unnið að því að gera framtíðarsýn safnsins að veruleika, hefur skilað sér í auknum straumi ferðamanna til staðarins, fjölgun atvinnutækifæra í sveitarfélaginu og varðveislu sögulegra minja.“ Engum blöðum er um það að fletta að Síldarminjasafnið á Siglufirði er eitt aðalaðdráttarafl ferðamanna til staðarins. Þegar safnið opnaði 1994 voru gestir um 4.000 talsins það árið og aðeins um tíu prósent erlendir ferðamenn. Á tuttugu og fimm árum hefur þróunin orðið sú að nú eru gestir að jafnaði um 27.000 árlega og erlendir ferðamenn um og yfir 60%. Sú breyting hefur jafnframt orðið að safnið tekur nú á móti gestum allan ársins hring, en ekki bara yfir sumartímann. „Nú, þegar Íslendingar ætla að ferðast um landið sitt í sumar vil ég nota tækifærið og hvetja alla til að kíkja við á einhverju sjóminjasafnanna sem víða er að finna. Þar sem mikinn fróðleik að finna um undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar um aldir,“ segir Anita að lokum.
Viðtalið birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri sem ritform gefur út. Því er dreift til fyrirtækja um land allt en það má einnig nálgast á heimasíðu útgáfunnar https://ritform.is/

 

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Litun á laxholdi með náttúrulegum Litarefnum

Lokið er AVS verkefninu „Litun á Laxholdi með náttúrulegum Litarefnum“ og hefur lokaskýrsla verkefnisins nú verið gefin út. ...

thumbnail
hover

Gott úthald rannsóknaskipanna

Þrátt fyrir mjög krefjandi ytri aðstæður vegna Covid faraldursins hafa rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar komist í alla rannsókna...

thumbnail
hover

Samstaðan er okkar sterkasta vopn

Þorlákur Halldórsson, fráfarandi formaður Landssambands smábátaeigenda brýnir félaga sína til samstöðu gegn frumvörpum sjávar...