Skaginn 3X stækkar þjónustusvið sitt

155
Deila:

Í kjölfar kaupa Baader á meirihluta í Skaganum 3X hefur þjónustusvið fyrirtækisins verið eflt til
muna. Nýir sérfræðingar leiða fyrirtækið í átt að aukinni fjarþjónustu með áherslu á fyrirbyggjandi
þjónustusamninga.Svanur Þór Sigurðsson hefur verið ráðinn nýr þjónustustjóri Skagans 3X og Róbert
Sigfússon, sem lengi hefur farið fyrir þjónustudeildinni, mun taka við sem þjónustusérfræðingur
fyrir íslenska markaðinn. Eru breytingarnar liður í því að styrkja starfsemina bæði innanlands og
á alþjóðavettvangi.
Þjónustusérfræðingar með hugbúnaðarþekkingu
„Við höfum stækkað þjónustudeildina með því að ráða nýja þjónustusérfræðinga,
endurskilgreina hlutverk innan deildarinnar og bæta við starfsmönnum með
hugbúnaðarþekkingu,“ segir Trausti Árnason, framkvæmdastjóri tækniþróunar hjá Skaganum
3X. „Liðsheildin hefur verið efld og nýir starfsmenn hafa bæst við til þess mæta stærri og
fjölbreyttari kúnnahóp á nýjum mörkuðum.“
Fjarþjónusta, fyrirbyggjandi viðhald og hraðari uppsetningar
Lögð er áhersla á að allir viðskiptavinir Skagans 3X fái hágæðaþjónustu. Nýir liðsmenn eru allir
reyndir þjónustusérfræðingar með áralanga reynslu af vinnu við lausnir fyrir matvælavinnslu.
Meginmarkmiðið með stækkuninni er að viðhalda góðri þjónustu, flýta fyrir innleiðingarferlinu
hjá viðskiptavinum og bæta viðhaldsþjónustu með áherslu á þjónustusamninga með
fyrirbyggjandi viðhaldi ásamt 24/7 fjarþjónustu og þjónustuvörum sérsniðnum að
viðskiptavinum. Er það gert til að hámarka nýtingu og verðmæti uppsettra kerfa.
Mikil reynsla í að leiða þjónustuteymi

Svanur Þór Sigurðsson

“Mér er það mikil ánægja að taka við nýju starfi og leiða þjónustudeild Skagans 3X á þessum
breyttu tímum,” segir Svanur Þór Sigurðsson verkfræðingur. “Ég hef alla tíð starfað í kringum
búnað fyrir matvælavinnslu og ég hef mikla reynslu í að byggja upp öflugt þjónustuteymi í
geiranum. Ég mun nýta mér þá þekkingu til að byggja upp trausta og stöðuga þjónustu fyrir
viðskiptavini Skagans 3X. Félagið býr yfir gríðarlega mikilli tækniþekkingu og reynslu í
matvælaframleiðslu og við munum halda áfram að byggja hana upp til að mæta þörfum
viðskiptavina í dag. Við munum einnig þróa fjarþjónustuna okkar áfram en þar sjáum við mikla
möguleika í því að geta brugðist bæði hratt og vel við ákveðum þjónustubeiðnum óháð stað og
tíma.“
Sérfræðingur fyrir innanlandsmarkað
Róbert Sigfússon mun einbeita sér að því að sinna íslenskum viðskiptavinum en það er hópur
sem hann þekkir vel og hefur starfað fyrir um árabil. „Ég sé þetta sem mikilvægt og spennandi
skref í styrkingu á tengslaneti og þjónustu gagnvart viðskiptavinum á Íslandi,“ segir Róbert.
„Með þessari stækkun teymisins og breyttum áherslum munum við ná að bæta viðbragðstíma
og lausnartíma gagnvart okkar viðskiptavinum enn betur.“

Um Skaginn 3X:
Skaginn 3X framleiðir hátæknibúnað fyrir matvælavinnslu. Ræturnar liggja í sjávarútveginum en í
dag þjóna lausnirnar fisk-, kjöt- og kjúklingavinnslu. Búnaður fyrirtækisins er framleiddur á
Íslandi og seldur um allan heim.
Skaginn 3X býður upp á úrval sérhannaðra kæli-, frysti- og þíðingarkerfa ásamt
heildavinnslukerfum. Hugvit og útsjónarsemi hafa skilað fyrirtækinu fjölda einkaleyfa í gegnum
tíðina. Allt sem fyrirtækið gerir er hannað með hámörkun vörugæða, afkasta og afraksturs í
huga.
Höfuðstöðvar Skagans 3X eru á Íslandi en skrifstofur og samstarfaðilar fyrirtækisins eru
staðsettir um allan heim. Þannig getur fyrirtækið unnið náið með viðskiptavinum sínum og skilað
lausnum sem stuðla að virðisaukningu í framleiðslukeðjunni.

Deila: