Skelfilegar afleiðingar!

Deila:

Loftslagsbreytingar eru að valda afdrifaríkum súrefnisskorti í höfum jarðar, segir í nýrri skýrslu Alþjóðanáttúruverndarsambandsins, IUCN. Afleiðingarnar verða skelfilegar fyrir lífríki hafsins og brothættar byggðir við sjóinn, segir í skýrslunni sem var kynnt á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madrid samkvæmt frétt á ruv.is

Loftslagsbreytingar af manna völdum eru að valda stórskaða í hafinu. Hækkandi hitastig hafsins veldur minna súrefnismagni. Það verður til þess að lífríki hafsins er stefnt í mikla hættu. Grethel Aguilar, framkvæmdastjóri IUCN, segir að þjóðarleiðtogar verði að standa við hugmyndir sínar um að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda til þess að vernda fiskveiðisamfélög.

Samkvæmt skýrslunni er lágt súrefnismagn í 700 hafsvæðum víðsvegar um heiminn. Á sjöunda áratug síðustu aldar voru svæðin 45. Síðustu hálfa öldina hefur fjöldi algjörlega súrefnislausra hafsvæða fjórfaldast. Dan Laffoley, vísindamaður við IUCN og einn ritstjóra skýrslunnar, segir hana mögulega vera lokaviðvörun um áhrif mannkyns á lífríki jarðar með útblæstir kolefna.

Túnfiskur og hákarlar eru meðal þeirra tegunda sem eru í mestri hættu vegna minnkandi súrefnis. Þeim er þrýst nær yfirborði sjávar í leit að súrefni þar sem þeir verða auðveldari bráð.

Í skýrslunni er því spáð að höfin eigi eftir að glata um þremur til fjórum prósentum af súrefnisbirgðum sínum næstu aldamót. Mest verður tapið í efstu þúsund metrum sjávar, þar sem mest lífríki er að finna.

 

Deila: