Skemmtilegt en krefjandi verkefni

Deila:

Ísfisktogarinn Helga María AK kom til bæjarins Ilulissat á vesturströnd Gænlands fyrir helgina. Bærinn er á rúmlega 69°N við hinn svokallaða Diskóflóa. Það er Náttúruauðlindastofa Grænlands sem leigir skipið af HB Granda í sumar með það að markmiði að kanna rækju- og grálúðustofna við Vestur-Grænland.

,,Þetta er búið að vera spennandi verkefni en jafnframt krefjandi,“ sagði Heimir Guðbjörnsson skipstjóri er rætt var við hann af heimasíðu HB Granda. Að sögn Heimis var farið frá Reykjavík 15. júní sl.

,,Við byrjuðum á að fara til Nuuk til að taka rækjutrollið og annan búnað um borð. Þar bættust fimm fiski- og líffræðingar frá náttúruauðlindastofunni í hópinn en í áhöfninni eru alls 11 Íslendingar,“ segir Heimir.

Sá háttur er hafður á við rannsóknirnar að togað er með rækjutrollinu í 15 mínútur í senn. Þá er seltumagn og hitastig sjávar mælt.

,,Það hefur valdið okkur nokkrum erfiðleikum hér norðurfrá að hafísjakar eru úti um allt. Þeir stærstu koma fram á ratsjá en minni molana verðum við að koma auga á. Það er af og til mikil þoka yfir svæðinu, sérstaklega hér í Diskóflóanum, og menn verða því stöðugt að vera á varðbergi. Hér fyrir innan er fjörður þar sem skriðjökull nær langt út í sjó. Það brotna stöðugt heilu fjöllin úr jöklinum og fjörðurinn er kjaftfullur af hafís sem svo rekur út á Diskóflóann. Ef ég ætti að nota einhverja líkingu þá dettur mér í hug að þetta sé líkast því að stunda togveiðar á Jökulsárlóni, bara á milljón sinnum stærra hafsvæði.“

Heimir segir að næst verði haldið með rækjutrollið eitthvað norður fyrir 70°N. Síðan verði grálúðuslóðin fjær landi könnuð og til standi að endað verði á rannsóknum í kanadískri lögsögu. Til standi einnig að fjölga fiski- og líffræðingum í níu. Væntanleg heimkoma til Reykjavíkur er svo 29. ágúst nk.

 

 

Deila: