-->

Skerðing hvalveiðisvæðis verði afturkölluð

Fulltrúar Hrefnuveiðimanna ehf. gengu í morgun á fund sjávarútvegsráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, til að fá hnekkt ákvörðun forvera hans í starfi, Steingríms J. Sigfússonar, um að skerða veiðisvæði hrefnuveiðibáta á Faxaflóa verulega frá því sem áður var. Þar með var svokallað griðasvæði hvala á Faxaflóa stækkað. „Það er verið að skoða málið og við vonumst til að þessi breyting verði dregin til baka. Hún kippir gjörsamlega grundvellinum undan hrefnuveiðunum, en á svæðinu sem okkur hefur nú verið ýtt út af, höfum við tekið um 90% hrefnunni undanfarin ár,“ segir Gunnar Bergmann, framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna ehf. í samtali við kvotinn.is

Gunnar segir að það sé rangt að hrefnuveiðarnar hafi haft neikvæð áhrif á hvalskoðun. Engir árekstrar hafi verið milli veiðimanna og hvalaskoðunar, enda hafi hvalaskoðunarbátarnir ekki farið út fyrir þá línu, sem áður markaði veiðisvæðið. Vissulega hafi hrefnu á Faxaflóa fækkað, en það sé vegna fæðuframboðs, ekki vegna veiða. „Það eina skiptir hrefnuna máli er að hafa eitthvað að éta. Það er út í hött að halda því fram að fækkun hrefnu á Faxaflóa megi rekja til veiða eins og talsmenn hvalaskoðunarfyrirtækja hafa haldið fram. Það er fæðuframboðið sem hefur brugðist með hruni sandsílastofnsins. Hrefnan fer annað til að éta,“ segir Gunnar.
Aðeins hafa þrjár hrefnur veiðst á þessari vertíð og vegna útfærslu veiðisvæðisins á Faxaflóa hefur hrefnubáturinn Hrafnreyður haldið norður fyrir land til að leita að hrefnu. „Þessi ákvörðum fyrrverandi ráðherra sjávarútvegsmála á síðustu millimetrum hans í embætti var órökstudd og án nokkurs samráðs við okkur. Hún kom eftir að vertíð var hafin og allar okkar rekstraráætlanir byggðust á óbreyttu veiðisvæði. Með breytingunni er grundvellinum kippt undan veiðunum og því vonumst við til að hún verði dregin til baka,“ segir Gunnar.
Undanfarin ár hefur allt kjöt af hrefnu veiddri við landið farið á innanlandsmarkað og eftirspurn verið mikil að sögn Gunnars. Hvalkjöt hefur verið á matseðli fjölda veitingastaða um allt land og verið eftirsótt, bæði af Íslendingum og erlendum ferðamönnum.
Í rökstuðningi fyrrverandi ráðherra fyrir ákvörðun um að takmarka veiðisvæðið á Faxaflóa er vitnað í niðurstöður nefndar um stefnumörkun í hvalveiðimálum og segir meðal annars svo: „Við ákvörðun um afmörkun griðasvæðisins í Faxaflóa hafði ráðherra að leiðarljósi hagsmuni hvalaskoðunar- og hvalveiðifyrirtækja og jafnframt var stuðst við tillögur meirihluta nefndarinnar.  Ákvörðun ráðherra um nýtt griðasvæði hvalveiða í Faxaflóa gengur skemur en tillögur meirihluta nefndarinnar. Nýtt griðasvæði hvala í Faxaflóa afmarkast nú frá Garðskagavita og beina línu norður að Skógarnesi. Ákveðið var hins vegar að griðasvæði hvala á Skjálfandaflóa skuli vera óbreytt.“
Á myndinni er hrefnubáturinn Hrafnreyður í höfn í Hafnarfirði en áhöfn hans leitar nú fanga fyrir norðurlandi.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason