-->

Skipin borin eftir stígnum

Milli Grindavíkur og Njarðvíkur liggur stígur yfir hraunið, markaður ferðum manna um aldir. Eftir þessum stíg gengu vermenn fram og til baka eftir því hvort róið var frá Grindavík eða Njarðvík. Því réðu gæftir og göngur þorskins á hrygningarslóðina. Sagt er að sjómenn hafi jafnvel borðið skip sín á milli þessara hafna. Og meðan karlar voru á sjó gengu konur frá Grindavík til að sækja salt til Njarðvíkur og báru á bakinu. Fiskinn varð að salta. Leiðin erum um 50 kílómetrar fram og til baka.
Frá þessum stíg er meðal annars sagt frá á vefnum ferlir.is
„Allir leiðir liggja til Rómar“ var sagt fyrrum. Á sama hátt má segja að fyrrum hafi  „allar götur hafi legið til Grindavíkur“. Grindavík var t.d. um aldir ein mesta „gullkista“ Skálholtsbiskups. Afurðir þaðan brauðfæddu alla skólasveina stólsins sem og heimilisfólkið, þ.á.m. biskupinn sjálfan. Sagt er og að biskupinn hafi af og til nartað í fisk frá Grindavík, öðrum til samlætis. Aðal útflutningsafurðir Biskupsstóls komu og frá Grindavík. Það þarf því engan að undra að göturnar fyrrnefndu hafi markast djúpt í hraunhelluna undan hinni miklu umferð – því flestir, sem komu til Grindavíkur, fóru reyndar þaðan aftur, sumir þó seint og um síðir.
Um eldri Eldvarparhraunin lágu Skipsstígur frá Járngerðarstöðum og Árnastígur frá Húsatóftum. Þessar götur sameinuðust í eina við ofanverðan Rauðamel og enduðu í Njarðvíkum. Í örnefnalýsingu fyrir Járngerðarstaði segir: „Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum) eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli og hét þar Skipsstígur“. Sumir hafa nefnt stíg þennan Skipstíg (Skipsstíg) eða Skipastíg. Ekkert af því er vitlausara en annað. Hluti Skipsstígsins, norðvestan undir Lágafelli, var gerður upp sem vagnvegur skömmu eftir aldarmótin 1900. Um var að ræða atvinnubótavinnu er dugði skammt við endurnýjun vegarins og aðlögun hans að nútímakröfum.