Skipin ýmist á sjó eða í landi

104
Deila:

Kolmunnaskipin sem lágu í Norðfjarðarhöfn  héldu til veiða í gær þegar niðurstöður skimunar áhafna þeirra fyrir Covid 19 lágu fyrir. Niðurstöðurnar voru neikvæðar í öllum tilvikum og því ekkert því til fyrirstöðu að láta úr höfn. Skipin munu hefja veiðar á gráa svæðinu suður af Færeyjum en þangað eru um 350 mílur frá Neskaupstað. Í dag höfðu engar fréttir borist um kolmunnaveiði á gráa svæðinu samkvæmt færslu á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Gullver NS landaði 104 tonnum af blönduðum afla á Seyðisfirði í gærmorgun. Gert er ráð fyrir að hann haldi á ný til veiða klukkan átta í kvöld og verði á miðunum yfir páskahátíðina.

Skip Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum, Bergey VE og Vestmannaey VE, munu verða í landi yfir páskana. Bergey landaði í Eyjum í gærkvöldi og Vestmannaey er að landa í dag. Ráðgert er að bæði skipin haldi til veiða á annan í páskum.

Á myndinni er verið að landa úr Vestmannaey. Ljósmynd Guðmundur Alfreðsson.

 

Deila: