Skiptar skoðanir um fiskeldi í Eyjafirði

297
Deila:

Bæjarráð Fjallabyggðar leggur til við Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann óski nú þegar eftir mati á burðarþoli Eyjafjarðar m.t.t. fiskeldis og að í beinu framhaldi verði unnið áhættumat fyrir erfðablöndun vegna mögulegs fiskeldis í Eyjafirði. Þetta kom fram á fundi ráðsins nú í vikunni.

Áður hafði hafði Bæjarstjórn Akureyrar samþykkt tvær tillögur um fiskieldi. Önnur lagðist gegn fiskeldi í Eyjafirði en hin hvatti til frekari rannsókna og burðarþolsmats áður en firðinum yrði lokað. Fram hefur komið frá Hafrannsóknastofnun að forsenda burðarþolsmats sé að sjávarútvegsráðherra óski eftir henni.

Stjórn Samtaka atvinnuþróunar og sveitarfélaga á Norðurlandi eystra

telur nauðsynlegt í ályktun frá því fyrr í maí „að sýna mikla varkárni er varðar lífríki Eyjafjarðar, áhrif á ferðaþjónustu sem og ásýnd fjarðarins. Stjórn SSNE telur algjört lykilatriði að samráð sé haft við sveitarfélög og íbúa í jafn umfangsmiklu máli og fiskeldi er og telur ótækt að slíkar ákvarðanir verði teknar í óþökk heimamanna.“

„Bæjarráð Fjallabyggðar tekur undir margt sem fram kemur í seinni samþykktri bókun bæjarstjórnar Akureyrar sem og bókun stjórnar SSNE varðandi stöðu mögulegs fiskeldis í Eyjafirði. Bæjarráð leggst hinsvegar eindregið gegn samþykktri fyrri bókun bæjarstjórnar Akureyrar á sama fundi um sama mál, þar sem lagt er að sjávarútvegsráðherra að banna allt laxeldi í sjó í Eyjafirði, án frekari umræðu og samráðs sveitarfélaga á svæðinu.

Með uppbyggingu undanfarinna ára hefur laxeldi í sjó haslað sér völl sem mikilvæg atvinnugrein á Íslandi um leið og í ljós hafa komið miklir möguleikar til frekari þróunar greinarinnar. En á sama tíma og ljóst er að miklir möguleikar eru til þróunar og vaxtar greinarinnar þá er einnig ljóst að varlega þarf að stíga til jarðar. Gæta þarf að áhrifum, jákvæðum sem neikvæðum, á náttúru og hugsanlegum áhrifum á aðrar atvinnugreinar sem og samfélög í heild. Því telur bæjarráð nauðsynlegt að gaumgæfa allar hliðar máls og að það sé best gert með öflugu samtali og samráði allra sveitarfélaga við Eyjafjörð með þátttöku íbúa og þekkingarsamfélags.

Að síðustu ítrekar bæjarráð mikilvægi þess að áfram verði unnið í anda þess samráðs sem verið hefur með sveitarfélögum í firðinum og að virðing sé ætíð borin fyrir sjónarmiðum þeirra sem sjá tækifæri framtíðar í fiskeldi.“

Bæjarstjóra var falið að koma ofangreindum sjónarmiðum á framfæri við ráðherra, sveitarfélögin við Eyjafjörð og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.

 

 

 

Deila: