Skiptast á að taka aflann um borð

96
Deila:

Makrílvertíðin sem hófst hjá Síldarvinnslunni um síðustu mánaðamót hefur farið hægt af stað. Skipin hafa helst verið að veiða suður af landinu og hefur aflinn ekki verið mikill og mjög síldarblandaður. Skipin sem landa hjá Síldarvinnslunni hafa haft samstarf um veiðarnar. Afla þeirra er hverju sinni dælt um borð í eitt skipanna sem flytur hann að landi og skiptast skipin á að taka aflann um borð. Með þessu fyrirkomulagi er minna um frátafir frá veiðum og skipin ekki að sigla um langan veg með lítinn afla. Skipin sem taka þátt í þessu samstarfi eru Beitir NK, Börkur NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA en gert er ráð fyrir að samstarfið verði við lýði á meðan veiðin er treg samkvæmt frétt frá Síldarvinnslunni.

Börkur kom til hafnar í Neskaupstað í gærmorgun með um 800 tonn og var einungis um helmingur aflans makríll. Alls hefur tæplega 5000 tonnum af makríl verið landað í Neskaupstað til þessa á vertíðinni og auk þess hafa tæplega 1800 tonn af síld borist á land.

Vinnslan í fiskiðjuverinu hefur gengið vel en ávallt tekur nokkurn tíma í upphafi vertíðar að fá allar vélar til að virka eins og ætlast er til. Þá hefur verið tekinn í notkun nýr búnaður í verinu sem farinn eru að skila sínu hlutverki ágætlega.

Makrílveiðin í ár hófst fyrr en undanfarin ár og virðist vera að makríllinn sé að mjög takmörkuðu leyti genginn inn í íslenska lögsögu. Hafa ber í huga að veiðar fóru einnig hægt af stað á vertíðinni í fyrra.

 

Deila: