-->

Skiptir miklu máli að vera bjartsýnn

Miklar breytingar hafa orðið á rekstri sjávarútvegsfyrirtækisins Agustson í Stykkishólmi frá aldamótum. Þá var reksturinn byggður á vinnslu á hörpuskel og rækju. Nú er hvorugt fyrir hendi og vinnslan byggist á saltfiskvinnslu og útgerð öflugs báts í krókakerfinu. Auk þess vinnur fyrirtækið grásleppu og makríl í Hólminum og er með umsvifamikinn rekstur í Danmörku. Áföll eins og bann við skelfiskveiðum og hrun í veiðum og vinnslu á rækju, hafa í raun leitt til sóknarfæra á öðrum sviðum og þau hefur fyrirtækið nýtt sér.
„Sóknarfærin eru víða. Miklu máli skiptir að vera bjartsýnn og opinn fyrir möguleikum og vera óhræddur við að breyta til, þegar þess er þörf. Það höfum við gert hjá þessu fyrirtæki. Við erum bjartsýn á að áður en um langt um líður muni atvinnuveiðar á hörpuskel hefjast á nýjan leik á Breiðafirði,“ segir Sigurður Ágústsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins í samtali við nýútkomin Sóknarfæri í sjávarútvegi.
Rétt áður en skelveiðarnar voru bannaðar eftir að stofninn hrundi vegna sýkingar höfðu verið miklar tilfærslur á skelkvóta í Hólminum. Agustson og Þórsnes höfðu verið að kaupa mikið af skelkvóta til sín til að tryggja að þessar heimildir myndu haldast í bænum og gagnast vinnslunum, sem þessi fyrirtæki voru búin að byggja upp. „Það var því viðbót við áfallið að vera nýbúnir að fjárfesta í heimildum sem síðan urðu að engu. Sem betur fer höfðu þessi fyrirtæki borð fyrir báru til þess að geta byggt sig upp á nýjan leik í bolfiski, meðal annars með hjálp svokallaðra skelbóta í formi þorskveiðiheimilda. Þær hafa ráðið úrslitum fyrir Stykkishólm og að hér skuli áfram vera útgerð og vinnsla á fiski,“ segir Sigurður.
Gullhólmi SH
Töluverðar breytingar urðu á útgerð Agustson á síðasta ári. Þá var stóra línuskipið skipið Gullhólmi selt og smíðaður nýr Gullhólmi í litla kerfinu, 30 tonna plastbátur af  stærstu gerð frá Seiglu. „Hugmyndin var að sníða okkur enn betur stakk eftir vexti. Gamli Gullhólmi var einfaldlega of stór fyrir okkur miðað við þær heimildir sem við höfðum. Með því skipta úr aflamarkinu niður í krókaaflamarkið náðum við að auka við okkur heimildir vegna verðmismunar á milli kerfanna. Við teljum svo að reksturinn á þessum nýja Gullhólma sé hagkvæmari en á þeim stóra. Báturinn byrjaði veiðar í byrjun október í fyrra og hefur gengið mjög vel. Það er beitningarvél um borð og tvær fimm manna áhafnir skipta með sér róðrum, eru að í tvær vikur í senn. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel. Báturinn landaði á Siglufirði fram í desember en síðan hefur hann verið í Breiðafirðinum. Eins og staðan er í dag dugir hann til að halda upp stöðugri vinnslu, en það má ekki miklu muna, en við kaupum líka fisk á mörkuðum, þegar það er hagkvæmt.
Saltfiskvinnsla fyrirtækisins byggist á svokölluðum SPIG-fiski  og erum helst að fókusera á vinnslu á flöttum fiski fyrir Spán, Ítalíu og Grikkland. Eitthvað fer líka inn á Portúgal. Markaðirnir mættu vera betri. Við höfum oft séð hærri verð en við höfum verið að selja á að undanförnu. Krónan er líka óhagstæð, gengið hátt sem þýðir færri krónur í kassann,“ segir Sigurður.
Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaðið Sóknarfæra í sjávarútvegi á slóðinni:
https://issuu.com/athygliehf/docs/soknarfaeri_sjavarutvegur_3tbl_2016

 

Comments are closed.