Skiptir öllu að það sé gaman á sjónum

321
Deila:

„Mér finnst skipta öllu máli að það sé gaman á sjónum og létt yfir mönnum en vitanlega getur maður ekki verið brosandi allan daginn, alla daga! Ég trúi því samt að verkin vinnist alltaf betur ef það er gaman í vinnunni,“ segir Jón Sigurgeirsson, 39 ára gamall stýrimaður, fæddur og uppalinn Dalvíkingur sem hefur verið í sjómennskunni frá 17 ára aldri. Eins og svo margir byrjaði hann sem háseti, leiðin lá svo í Stýrimannaskólann og síðustu ár hefur hann verið fyrsti eða annar stýrimaður á bæði botnfisk- og uppsjávarskipum. Jón Góa, eins og flestir þekkja hann, hefur á sínum ferli fyrst og fremst verið á skipum Samherja en var síðustu mánuði stýrimaður á togskipinu Bergi VE sem fiskaði fyrir Útgerðarfélag Akureyringa nú fram undir sjómannadag. Þar þróuðust mál þannig að Jón þurfti með skömmum fyrirvara að taka við skipstjórn síðustu túrana og þreyta sína frumraun sem slíkur sem hann segir hafa bæði verið sérstaka og ánægjulega tilfinningu. Næsta pláss Jóns Góa verður stýrimannsstaða á Oddeyrinni EA sem bætist í flota Samherja hf. á næstu vikum og verður fyrsta botnfiskskip Íslandssögunnar sem kemur með lifandi fisk að landi. Við spjöllum við Jón Góa um sjómennskuna.

Fjölbreytt skip og ólíkur veiðiskapur

 „Fyrstu kynni af sjómennsku hjá mér voru á netavertíð á bátnum Víði Trausta EA frá Hauganesi þar sem Ragnar Reykjalín var skipstjóri. Eftir þá vertíð fór ég aftur að vinna í fiski í stuttan tíma en fékk svo pláss á togaranum Björgvin EA á Dalvík þar sem ég var háseti í 8-9 ár,“ svarar Jón um upphaf sinnar sjómennsku. Þegar hann byrjaði á Björgvin var skipið enn á frystingu en síðari árin var það á ísfiski. Eftir árin um borð í Björgvin tók Jón ákvörðun um að fóta sig enn betur í sjómennskunni og lá leiðin í Stýrimannaskólann þar sem hann lauk námi rétt í þann mund sem þjóðfélagið stóð á öndinni vegna hruns bankanna.

„Næsta skip var Snæfellið EA þar sem ég var um fjögurra ára tíma, alveg magnaður tími. Síðan fór ég á fjölveiðiskipið Kristina eitt sumar og eftir það var mér boðin staða 2. stýrimanns á Vilhelm Þorsteinssyni EA. Þar var ég allt þar til skipið var selt til Rússlands í lok árs 2019 en við sem vorum þar um borð fórum yfir á Margréti EA. Þegar svo fór að styttast í komu nýja Vilhelms Þorsteinssonar EA fór ég á togarann Berg VE og var þar frá því í nóvember síðastliðnum allt þar til núna á dögunum. Og næst verður það svo staða 1. stýrimanns á Oddeyrinni EA sem vonandi verður tilbúin á veiðar þegar líður á sumarið,“ segir Jón þegar hann rekur helstu skip sem hann hefur verið á síðustu ár. Hann segist fjarri því með sjómennskuna í blóðinu því í nærfjölskyldunni sé það aðeins móðurbróðir hans sem sé vélstjóri.

 „Ég átti mér enga sérstaka drauma um sjómennsku en áhuginn kviknaði við að fylgjast með þessum körlum þegar þeir voru að koma í land á Dalvík þegar ég var barn og unglingur. Maður var að þvælast við höfnina og leit upp til þeirra og auðvitað blundaði í manni að prófa að fara á sjó. Þess vegna lá beint við að grípa tækifærið þegar það bauðst. Svo bara æxlaðist þetta svona, ég fann mína fjöl á sjónum, menntaði mig og nýt mín í sjómennskunni.“

Uppsjávarveiðarnar eru skemmtilegar

Á rúmum tuttugu árum á sjó hefur Jón Góa kynnst botnfiskveiðum, uppsjávarveiðum, netaveiði, unnið og stjórnað á dekki, verið á frystingu, ísfiski og gegnt bæði hlutverki stýrimanns og skipstjóra. Skipin hafa verið stór og smá. Hann segir erfitt að gera upp á milli hvað veiðiskapinn varðar. Allt hafi þetta sína kosti og galla.

Jón Góa í netavinnu á dekkinu á Snæfelli

„Ég verð samt að viðurkenna að það er alltaf gaman að sjá eitthvað yfir 100 tonnin og mikinn afla eins og er í uppsjávarveiðinni. Hún er mjög skemmtileg og gaman að spreyta sig á nótinni. En heilt yfir þá skiptir það mig engu máli hver veiðiskapurinn nákvæmlega er. Sjómennskan er mín vinna, mitt lífsstarf og ég vinn þau verkefni sem mér eru falin og ég fæ tækifæri til. En vitanlega eru dagarnir í sjómennskunni misjafnir. Það er stórkostlegt að vera á sjó í góðu veðri á sumrin en vitanlega líka best að geta verið heima með fjölskyldunni á slíkum dögum. Svo eru það líka dagarnir þegar veður eru slæm. Þeir taka verulega á skrokkinn. En ég hef verið svo lánsamur að flest þeirra skipa sem ég verið á hafa verið stór og góð sjóskip. Bergur VE hreyfðist reyndar mjög mikið þannig að það tók dálítið á að vera á honum. Þó ég hafi ekki verið sjóveikur þá er það nú staðreynd að þrautreyndir sjómenn geta alveg fundið fyrir sjóveiki þegar þeir fara á skip sem hreyfast mikið,“ segir Jón og bætir við að það sé gaman að hafa fengið að kynnast svona mörgum og ólíkum skipum. „Kristina var gríðarlega stórt skip og gamli Vilhelm Þorsteinsson er eftirminnilegur sem mjög gott sjóskip. En akkúrat núna er ferskast í minni veltingurinn á Bergi VE í veðrunum síðustu mánuði,“ segir Jón og hlær dátt.

Sefur á daginn – vakir á nóttunni

Fyrir þá sem ekki þekkja þá er hlutverk 2. stýrimanns að stjórna sinni vakt á dekki og því er hans starfsvettvangur ekki í brú, eins og margir kynnu að halda út frá starfsheitinu. Aftur á móti er 1. stýrimaður sá sem leysir skipstjórann af í brúnni. „Fyrsti stýrimaður stendur þannig vaktina í brúnni þegar skipstjórinn sefur. Næturskipstjóri má allt eins kalla hans stöðu,“ segir Jón og svarar því aðspurður um hæl að honum falli vel að vinna á nóttunni og sofa á daginn.

„Þetta hentar mér mjög vel en ég viðurkenni samt að með árunum finnst mér alltaf verða erfiðara að snúa ofan af þessu þegar ég kem heim í frí. Það þarf nokkra daga til að rétta kúrsinn af aftur,“ segir Jón. Hann segist þá hugsun aldrei hafa sótt á sig að betra væri að snúa sér að einhverju öðru starfi en sjómennskunni. „Reyndar var langur óveðurskafli í vor þegar ég var á Bergi VE sem tók verulega í. Óveðursdagarnir á sjó taka sinn toll. En þá er það einmitt samheldnin í áhöfninni, lífsgleðin og bjartsýnin sem hjálpa manni. Ekki síst ef túrarnir eru langir.“

Þekking á öryggismálum mikilvæg

Öryggismálum sjómanna er ætíð gert hátt undir höfði í tengslum við sjómannadaginn og víst er að það er sameiginlegur árangur allra hlutaðeigandi hverju menn hafa fengið áorkað á síðari árum í fækkun slysa og dauðsfalla á sjó. Jón segir öryggismálin alltaf ofarlega í huga sjómanna. „Þetta er þáttur sem undantekningarlaust hefur verið í mjög góðum farvegi á öllum þeim skipum sem ég hef verið á. Auðvitað mættum við eflaust halda æfingar enn oftar en við gerum almennt en það er alveg ljóst að sú þekking sem við sjómenn höfum fengið í gegnum námskeið Slysavarnaskóla sjómanna hefur skipt gríðarlegu máli. Ekki bara í starfinu úti á sjó heldur almennt í daglegu lífi. Það er til dæmis ekki langt síðan að ég þurfti að ná hluta úr leikfangi sem sat fast í hálsi á ungum syni mínum og þar kom sér sannarlega vel sú grunnþekking sem ég hafði fengið í skyndihjálp á námskeiðunum,“ segir Jón.

Góð tilfinning að bera skipstjóraábyrgðina

Þegar Jón er spurður hvort hann hafi sett sér markmið um hversu langt hann ætli sér að ná í þessu starfi í framtíðinni er hann fljótur til svars. „Nei, þannig hugsa sé ég ekki. Ég er þakklátur fyrir það sem mér er trúað fyrir í sjómennskunni og svo kemur í ljós hvernig hlutirnir æxlast. Mér finnst einfaldasta reglan að gera hlutina og taka einn dag í einu,“ segir hann en viðurkennir að það hafi verið góð reynsla og tilfinning að taka alfarið við skipstjórn á Bergi VE nú í vor þó aðeins hafi verið í stuttan tíma og fáa túra.

„Þetta er að sjálfsögðu mikil ábyrgð en fyrir mér er ekki mikill munur í sjálfu sér á því að vera 1. stýrimaður eða skipstjóri. Helsti munurinn er sá að sem skipstjóri hefur þú úrslitavald í ákvarðanatökum. Sumum þykir eflaust stressandi að finna þá ábyrgð sem þú berð sem skipstjóri á bæði áhöfn og skipi en einhvern veginn er ég þannig gerður að sú reynsla sem ég hef fengið í sjómennskunni á síðustu rúmum 20 árum nýttist mér vel. Mér fannst það þess vegna fyrst og fremst vera hrikalega gaman að takast á við þetta nýja hlutverk þó í skamman tíma hafi verið,“ segir Jón. Engir leynistaðir til í dag

Starfsvettvangur skipstjórnenda er hlaðinn tækjum og þeir fá miklar upplýsingar í gegnum búnaðinn um t.d. fiskileit, strauma, stöðu veiðarfæranna í sjó, hegðun þeirra, innkomu á fiski og annað slíkt. Bæði þurfi skipstjórnendurnir að stýra veiðarfærunum en hafa einnig innsýn í uppsetningu veiðarfæranna og velta fyrir sér með hvaða hætti uppsetningar á veiðarfærum geti fiskað betur. Þrátt fyrir alla tækni segir Jón það vera staðreynd að sumir skipstjórar fiski alltaf betur en aðrir. „Breytingin frá fyrri tíð er samt sú að nú eiga menn sér engin leyndarmál um afla eða leynistaði á miðunum. Það er alltaf hægt að fletta upp hvar viðkomandi skip hefur verið að toga og hver aflinn hefur nákvæmlega verið. Það vita allir allt um alla. En menn hjálpast líka mikið að og upplýsingarnar berast milli skipanna um hvar er fiskirí og hvar ekki. Samvinnan í flotanum er góð,“ segir Jón Góa að lokum.

Viðtalið við Jón Góa birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri, sem Ritform gefur. Blaðinu er dreift til fyrirtækja um allt land, en það á einnig lesa á heimasíðu Ritforms á slóðinni https://ritform.is/wp-content/uploads/2021/06/soknarfaeri_3_tbl_2021_100_taka2.pdf

Deila: